Landsréttur staðfesti í síðustu viku að svipta foreldra forsjá yfir fjórum dætrum sínum, en dómurinn hafði fyrr í mánuðinum dæmt þau bæði fyrir ofbeldisbrot í garð þeirra.

Brotin áttu sér fyrst og fremst stað á heimili fjölskyldunnar í Reykjanesbæ frá því í maí 2018 til ágúst 2020 en faðirinn hlaut tveggja ára fangelsi og móðirin sex mánaða skilorðsbundin dóm, en þau voru hjón þegar brotin voru framin.

Samkvæmt nýjum dómi Landsréttar glíma dæturnar enn við afleiðingar þess langvarandi ofbeldis sem þær sættu af hálfu foreldra sinna.

Þá kemur fram að þrjár elstu dæturnar vilji ekkert með föður sinn hafa og vilji ekki búa hjá móður sinni og vera í takmörkuðu sambandi við hana, en fram kemur að elsta dóttirin vilji ekki vera í neinum samskiptum við hana.

Í þessum mánuði hefur Landsréttur tvisvar sinnum dæmt í málinu. Annars vegar var það dómur fyrir ofbeldisbrot foreldranna og hins vegar voru þau svipt forsjá.
Fréttablaðið/Ernir Eyjólfsson

Dómnum þótti ljóst af gögnum málsins að elstu dæturnar þrjár óttast foreldra sína. Þær óttist þó aðallega föður sinn, en treysta ekki móður sinni til að tryggja öryggi þeirra og velferð.

Um móðurina kemur fram í dómi Landsréttar að hún glími við veikleika á tilfinningasviði og sé í afneitun gagnvart eigin gjörðum. Henni skorti innsæi í eigin stöðu og vanda og skilning á tilfinningalífi og þörfum dætra sinna. Þá þykir vandséð að hún gæti byggt upp traust og tengsl við dæturnar að nýju.

Fréttin hefur verið uppfærð.