Börn í 7. bekk í Fossvogsskóla fá ekki að fara í skólabúðirnar á Reykjum í Hrútafirði vegna þess að fráfarandi skólastjóri, Ingibjörg Ýr Pálmadóttir, gleymdi að sækja um fyrir þau. Þegar umsókn loks barst frá skólanum var allt orðið fullt í skólabúðunum.

Er þetta annað árið í röð sem nemendur Fossvogsskóla komast ekki á Reyki en í fyrra var opinber skýring sú að ekki hefði verið hægt að fara vegna Covid-takmarkana.

Mikið hefur mætt á nemendum Fossvogsskóla undanfarið en barist hefur verið við myglu innan skólans undanfarin þrjú ár. Faðir í 7. bekk í Fossvogsskóla, sem Fréttablaðið ræddi við, segir barn sitt og vini þess vera mjög svekkt yfir því að komast ekki á Reyki.

„Þeim finnst skólinn og skólastjórnendur hafa brugðist sér,“ segir hann. Að sögn föðurins upplifa börnin það sem svo að þau séu skilin út undan og að skólinn „hati“ þau.

Verið er að vinna að lausn fyrir nemendurna og í tölvupósti sem sendur var á foreldra í október kemur fram að búið sé að bóka pláss í skólabúðunum á Laugarvatni og á Úlfljótsvatni næsta vor. Það myndi þó þýða að sami árgangur færi að öllum líkindum aftur á Laugarvatn í 9. bekk.

Karl B. Örvarsson, framkvæmdastjóri skólabúðanna á Reykjum, sýnir vonbrigðum nemenda 7. bekkjar Fossvogsskóla mikinn skilning.

„Þetta er svo leiðinlegt gagnvart blessuðum börnunum að þurfa að standa í þessu að það er þyngra en tárum taki,“ segir hann.

Að sögn Karls eru alltaf nokkrir skólar sem lenda í því að fá ekki pláss á Reykjum ár hvert. Byrjað er að bóka í skólabúðirnar með góðum fyrirvara og er þá reglan að fyrstur kemur, fyrstur fær.

Samkvæmt nýjustu sóttvarnareglum er aðeins hægt að taka á móti fimmtíu börnum í einu og því ljóst að færri komast að en vilja.

Komið hefur fyrir að skólar hafi þurft að afbóka vegna Covid-smita og segir Karl að þá sé iðulega reynt að bjóða einhverjum öðrum plássið en það geti þó verið erfitt fyrir skóla að stökkva til með svo stuttum fyrirvara.

„Fyrir okkur er þetta sárt af því krakkarnir njóta alltaf vafans og við reynum og reynum að gera allt í þeirra þágu. En svona er þetta bara,“ segir Karl.