„Mikilvægt er að passa upp á að fólk sem aðhyllist mismunandi trúarbrögð þurfi ekki að deila íbúð,“ segir í skýrslu um móttöku flóttafólks frá Kenía í Mosfellsbæ.

Mosfellsbær tók í september í fyrra við ellefu svokölluðum kvótaflóttamönnum, níu fullorðnum og tveimur börnum, sem áður höfðu flúið frá Súdan og Úganda til Kenía og komu þaðan. Helga Margrét Rútsdóttir verkefnisstjóri segir í skýrslu sinni að vel hafi tekist til við móttöku fólksins, ef frá séu talin vandkvæði við að útvega fólkinu húsnæði og skort á einstaklingsíbúðum. Það gerði einnig stöðuna vandasamari að í hópnum var bæði kristið fólk og múslimar.

„Vegna skorts á einstaklingsíbúðum leigðu sjö einstaklingar saman fyrsta árið, það er þrír einstaklingar leigðu saman á einum stað og tveir og tveir í sitt hvorri íbúðinni. Aðeins í einu tilfelli höfðu einstaklingarnir gefið til kynna í viðtölum fyrir komu að þeir gætu hugsað sér að deila íbúð saman og kom á daginn að sambúðin var erfið, sérstaklega í einni íbúðinni,“ lýsir verkefnisstjórinn þeim hnökrum sem síðar tókst þó að greiða nokkuð vel úr.

„Sambúðarörðugleikar, óeining og slagsmál milli nokkurra aðila í hópnum sköpuðu sundrung og erfiðleika við að hitta alla í einu og fótbrot eins einstaklings kallaði á meiri vinnu og stuðning verkefnastjóra við þann aðila. Þegar nær dró lokum verkefnisins virtist þó allt vera komið í góðan farveg og allir nema einn úr hópnum geta hist án vandkvæða. Hluti af sambúðarörðugleikum og óeiningu má kalla trúarlegs eðlis,“ segir í skýrslunni.

Þá segir að samfélagið í Mosfellsbæ í heild hafi verið mjög jákvætt gagnvart fólkinu og að bærinn hafi verið mjög vel til þess fallinn að taka á móti hópnum. „Flóttafólkið sjálft hefur sýnt jákvæðni, elju og þrautseigju og hafa þau flest staðið sig með sóma í því sem þau hafa tekið sér fyrir hendur. Framtíðin er björt.“

Skýrsla Mosfellsbæjar.