Rósa Konný Jóhannesdóttir fer fyrir hópi sem skipulagt hefur nammirölt á hrekkjavöku í Borgarnesi undanfarin ár. Hún segir að hátíðin hafi verið að stækka ár frá ári en nú þurfi að gera þetta á annan hátt. Fram að helgi hafi staðið til að halda nammiröltinu en á laugardag var ákveðið að hætta við það.

„Ég veit að margir eru ekki hrifnir af því að krakkar séu að banka upp á þessa dagana. Síðan þegar við sáum að smit voru að fara aðeins upp á við í Borgarnesi ákváðum við að slútta þessu,“ segir Rósa. Þetta þýðir þó ekki að hátíðin sé ónýt og hvetur Rósa fólk til þess að halda hrekkjavökuna heima hjá sér, skreyta vel og fara í göngutúra.

Þá stendur Skógræktarfélag Borgarfjarðar fyrir hrekkjavökustund í Einkunnum fólkvangi á föstudag. Verður kveiktur varðeldur, kakó sopið, sykurpúðar grillaðir og draugasögur sagðar.Í Þorlákshöfn verður dagskrá alla vikuna, svo sem draugahús í skólanum, unglingaball og bílabíó við smábátahöfnina. Kallast hátíðin Þollóween og er þetta í þriðja skiptið sem hún er haldin.


Ása Berglind Hjálmarsdóttir, einn af aðstandendum hátíðarinnar, segir hana aðeins minni í ár vegna faraldursins. Á föstudagskvöldið verður gengið í hús en þó með óhefðbundnu sniði. „Þetta er sá dagskrárliður sem vegur þungt hjá krökkunum en er að sama skapi dálítið tæpur vegna COVID,“ segir Ása. „Við fórum því þá leið að hafa mjög strangar reglur og börnin mega aðeins fara í hús hjá þeim sem hafa skráð sig fyrir fram og eru samþykkir því að fylgja reglunum.“

Ása.jpg

Ása Berglind Hjálmarsdóttir

Til að halda smitvörnum í lagi þurfa húsráðendur að skilja sælgæti eftir á borði eða stól við húsdyrnar og halda öruggri fjarlægð frá börnunum. Passa verður upp á að allt sælgæti sé í umbúðum. Þá eru allir hvattir til að spritta sig í bak og fyrir við þessa iðju. Í öllum öðrum viðburðum hátíðarinnar er hugað að smitvörnum í hvívetna. Til dæmis hafa verið settar upp þrautir í skrúðgarðinum í stað þess að fá alla á sama tíma í „beinagrindaleit“ eins og vaninn hefur verið.

„Það hefur sjaldnast skipt jafn miklu máli að hafa svolítið gaman og akkúrat núna,“ segir Ása. „Að reyna að finna einhvern flöt á því að skemmta sér, innan ákveðins ramma vitaskuld. Það er hópur kvenna sem stendur að þessu og foreldrafélagið kemur einnig að. Þetta er mjög lausnamiðaður hópur.“