Í gær fór fram fyrsta umræða á Alþingi um sveitarstjórnarfrumvarp Sigurðar Inga Jóhannssonar samgönguráðherra. Þar ber hæst þvingaða sameiningu sveitarfélaga með færri en 250 íbúa árið 2022 og 1.000 árið 2026.

Um áramót voru 36 sveitarfélög undir 1.000 íbúa markinu og tólf undir 250 íbúum. Íbúum Kjósahrepps fjölgaði og standa þeir nú á sléttum 250. Karl Magnús Kristjánsson oddviti segir byrjað að skoða kosti. Stefnt er á íbúafund í febrúar.

„Við tökum því sem að höndum ber því við teljum 99 prósent líkur á að frumvarpið verði samþykkt,“ segir Karl Magnús. „Það versta sem sveitarfélög gera er að gera ekkert fyrr en öxin fer að falla.“

Karl Magnús segir ekki sjálfgefið að Kjósarhreppur sameinist Reykjavík eða Mosfellsbæ þótt hreppurinn hafi verið skilgreindur á höfuðborgarsvæðinu. Sameining á Suðurlandi eða Vesturlandi sé möguleg, þá við Bláskógabyggð, Akraneskaupstað eða Hvalfjarðarsveit. „Það er allt galopið hjá okkur,“ segir hann.

Það sama segir Eyjólfur Ingvi Bjarnason, oddviti Dalabyggðar. Valkostagreining sé hafin og klárist í vor. „Við erum að skoða möguleika í allar áttir óháð landshlutum,“ segir Eyjólfur. Möguleikarnir liggja norður á Vestfirði, austur í Húnavatnssýslur, vestur á Snæfellsnes eða suður í Borgarfjörð. „Okkur finnst betra að vera búin að undirbúa okkur í tíma frekar en að vera þvinguð í eitthvað.“

Stór sameining á Snæfellsnesi hefur verið rædd sem og á Vestfjörðum, en þar gætu einnig orðið smærri sameiningar.

Karl Magnús Kristjánsson oddviti Kjósarhrepps
Fréttablaðið/Anton Brink

Kostirnir eru þrengri á norðausturhorninu, það er á Langanesi og Vopnafirði. Vopnfirðingar vildu ekki vera með sameiningunni sem varð Múlaþing í haust. Íris Grímsdóttir oddviti segir engin sameiningaráform uppi en íbúafjöldinn er um 650 manns.

Þorsteinn Ægir Egilsson, oddviti Langnesinga, segir óformlegar samræður hafnar við Svalbarðshrepp, þar sem íbúar eru 94. Samanlagður íbúafjöldi sé þó aðeins um 600. Sameining við Norðurþing eða Vopnafjörð hefur ekki verið rædd. „Ég á enn eftir að sjá hvernig þeir ætla að framkvæma þetta,“ segir Þorsteinn.

Landfræðilega er viðbúið að litlir hreppar eins og Tjörneshreppur og Fljótsdalshreppur þurfi að sameinast Norðurþingi og Múlaþingi. Í Austur-Húnavatnssýslu er stefnt á sameiningu fjögurra sveitarfélaga.

Í Rangárvallasýslu verður kosið um stóra sameiningu fimm sveitarfélaga í sumar. Tillaga Árborgar um stóra sameiningu í Árnessýslu var slegin út af borðinu fyrir tveimur árum. Þar eru fjögur sveitarfélög undir mörkum. Jón G. Valgeirsson, sveitarstjóri Hrunamannahrepps, var fylgjandi tillögunni. Hann segir vert að skoða aðrar leiðir, svo sem sameiningu uppsveitanna. „Fólk er þó enn þá feimið við þetta,“ segir Jón. „Mín skoðun er sú að ef farið verði í sameiningu ætti hún að vera stór.“

Sameining Skútustaðahrepps og Þingeyjarsveitar er í pípunum en í Eyjafirði er lítill vilji til sameiningar þótt þrjú sveitarfélög séu undir mörkum. „Við höfum frekar stefnt á að fjölga íbúum og erum andsnúin lögþvinguninni,“ segir Snorri Finnlaugsson, sveitarstjóri Hörgársveitar, sem í dag telur rúmlega 650 sálir, en fyrir fimm árum bjuggu þar 550. Segir hann sveitarfélögin í kringum Akureyri í góðu samstarfi um ýmis mál en ekki telja þörf á sameiningu.