„Mislingar er veirusjúkdómur sem er mjög smitandi og einkennist af hita og útbrotum um allan líkamann. Hann getur verið hættulegur og jafnvel valdið dauða.“ Svona hefst lýsing á mislingum á vef Landlæknis. Eins og Fréttablaðið greindi frá í dag hafa tvö börn og tveir fullorðnir verið greindir með mislinga hér á landi á síðustu dögum.

Mislingar var algengur sjúkdómur á árum áður en bólusetningar hafa dregið mjög úr tíðni smita á Vesturlöndum. Um 10% þeirra barna sem smitast fá alvarlega fylgikvilla, svo sem heilabólgu eða lungnabólgu.

Sjá einnig: Mikill viðbúnaður á Landspítala: Fjögur mislingasmit

Mislingaveiran er mjög smitandi og berst manna á milli með úða frá öndunarfærum, til dæmis með hósta og hnerra. Veiran getur lifað og valdið smiti í allt að tvær klukkustundir eftir að hún berst út í andrúmsloftið, að því er fram kemur á vef Landlæknis.

Einkenni sjúkdómsins koma fram 10-12 dögum eftir smit. Flenulík einkenni eru algeng til að byrja með; svo sem hiti, nefrennsli, sviði í augum, hósti, bólgur og höfuðverkur. Fram kemur að á þriðja eða fjórða degi veikidna komi oftast fram útbrot sem ná yfir allan líkamann og standa yfir í þrjá til fjóra daga. Eftir það fer sjúkdómurinn að réna.


„Mislingaveiran getur verið hættuleg og jafnvel valdið dauða. Alvarlegir sjúkdómar eins og eyrna- eða lungnabólga, kviðverkir, uppköst, niðurgangur og einnig heilabólga geta verið afleiðing mislinga. Alvarlegar heilaskemmdir af völdum mislinga geta einnig komið fram mörgum mánuðum eftir sýkinguna,“ segir á vefnum.

Sýklalyf gagnast lítið gegn mislingum en hitalækkandi lyf geta hjálpað fólki að líða betur. Bólusetning gefur 95% vörn en á undanförnum árum hefur verið tæplega 95% þátttaka í bólusetningum gegn mislingum á Íslandi. „Foreldrar eru hvattir til að halda áfram góðri þátttöku í bólusetningum því aðeins á þann hátt má halda þessum alvarlega smitsjúkdómi frá landinu.“