Viðræður eru hafnar eða að hefjast í þeim sveitarfélögum þar sem mynda þarf nýja meirihluta eða lappa upp á þá gömlu. Staðan er misflókin eftir því hvað kom upp úr kjörkössunum og á einum stað, Akureyrarbæ, eru fyrstu viðræðurnar þegar farnar út um þúfur.

Mosfellsbær er eitt af þeim þrettán sveitarfélögum þar sem sitjandi meirihlutar féllu. En þar í bæ höfðu Sjálfstæðisflokkurinn og Vinstri græn starfað saman síðan árið 2006. Algjör umturnun varð á mosfellskum stjórnmálum í kosningunum á laugardag.

Halla Karen Kristjánsdóttir, oddviti Framsóknarmanna sem stukku úr 3 prósentum í 32, skýrir niðurstöðuna þannig að bæjarbúar hafi þekkt fólkið á listanum af góðum verkum og tekist hafi að koma því til skila í baráttunni. Árangur Framsóknarflokksins á landsvísu hafi einnig hjálpað sem og að tap meirihlutaflokkanna hafi verið skýrt ákall um breytingar.

Þrátt fyrir þetta gerir Halla Karen ekki kröfu um bæjarstjórastólinn heldur verði ráðið í starfið. „Við erum byrjuð að leita að bæjarstjóra. Veistu um einhvern?“ segir hún kímin.

Í Hveragerði féll meirihluti Sjálfstæðisflokksins og viðræður Framsóknar og Okkar Hveragerðis standa yfir. Sjálfstæðisflokkurinn náði hins vegar hreinum meirihluta í Árborg, Framsóknarflokkurinn í Borgarbyggð og Í-listinn í Ísafjarðarbæ.

Í Reykjanesbæ og tuttugu öðrum sveitarfélögum hélt sitjandi meirihluti. Þar á bæ verður látið reyna á áframhaldandi meirihluta Samfylkingar, Beinnar leiðar og Framsóknarflokks sem styrktist um einn mann í kosningunum.

Samkvæmt Halldóru Fríðu Þorvaldsdóttur, oddvita Framsóknarflokksins, eru óformlegar viðræður hafnar og formlegar gætu hafist eftir helgi. Línurnar muni skýrast um helgina. Ekkert hefur verið rætt um bæjarstjórastólinn sem Kjartan Már Kjartansson, fyrrverandi bæjarfulltrúi Framsóknar, situr nú í.

Reykjanesbær var með verstu kjörsóknina, aðeins 47,5 prósent, en þar var hún 57 prósent fyrir fjórum árum. Halldóra segir þetta áhyggjuefni. „Fjórðungur íbúanna hér er af erlendum uppruna en þeir sem hafa búið hér í meira en þrjú ár vita að þeir hafa rétt til að kjósa,“ segir hún. „Við þurfum að fara í vinnu með þetta.“

Kópavogur og Hafnarfjörður eru dæmi um sveitarfélög þar sem verið er að reyna að framlengja meirihlutasamstarf. Þar hafa valdahlutföllin færst frá Sjálfstæðisflokki yfir til Framsóknar. Í Vestmannaeyjum er stefnt að framlengdum meirihluta Fyrir Heimaey og Eyjalista. Í Fjarðabyggð og á Akranesi héldu meirihlutar en enn er óljóst hvort þeir haldi áfram.

Í Norðurþingi hélt meirihluti Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna þrátt fyrir stórsókn Framsóknarflokksins. Engu að síður eru Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn að ræða saman. Augljósir erfiðleikar voru komnir í samstarfið og í vetur létu Vinstri græn bóka óánægju með forgangsröðun og verkstjórn Kristjáns Þórs Magnússonar, fráfarandi sveitarstjóra.

Hafrún Olgeirsdóttir, oddviti Sjálfstæðismanna í Norðurþingi, segir formlegar viðræður hafnar en á grunnstigi. „Við vildum hafa alla möguleika opna en fyrsti útgangs­punktur var að reyna að koma saman tveggja flokka meirihluta,“ segir hún. Segist hún gera fastlega ráð fyrir að ráðinn verði ópóli­tískur bæjarstjóri. Hefð sé fyrir því í sveitarfélaginu þó að Kristján Þór hafi komið úr röðum Sjálfstæðismanna.