Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu segir að misbrestur hafi orðið til þess að persónugreinanlegar upplýsingar hafi verið sendar úr dagbók lögreglu á aðfangadagsmorgni. Þetta kemur fram í tilkynningu vegna máls Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra sem sótti fjölmenna veislu í Ásmundarsal á Þorláksmessu.
Segir í stuttri tilkynningunni að vinnureglan sé sú að afmá persónugreinanlegar upplýsingar úr dagbók lögreglunnar þegar samantektir úr henni voru sendar hverju sinni.
Í dagbók lögreglunnar sem send var til fjölmiðla að morgni aðfangadags kom fram að „háttvirtur ráðherra í ríkisstjórn Íslands“ hafi verið meðal gesta í veislu í Ásmundarsal sem lögreglan leysti upp kvöldið áður.
Eftir að tilkynningin barst til fjölmiðla höfðu blaðamenn samband við aðstoðarmenn og ráðherra í ríkisstjórninni sem neituðu einn af hverjum öðrum að hafa verið í samkvæminu.
Fréttablaðið hafði heimildir fyrir því að Bjarni hefði verið umræddur ráðherra en hann greindi sjálfur frá því skömmu síðar sama dag í Facebook færslu þar sem hann baðst afsökunar.
Tilkynning lögreglu í heild sinni:
Vegna fyrirspurna fjölmiðla um tölvupóst sem þeim barst frá embættinu snemma á aðfangadag skal þess getið að vinnureglan er sú að afmá persónugreinanlegar upplýsingar úr dagbók lögreglunnar þegar samantektir úr henni eru sendar hverju sinni. Í samantektinni, sem var send fjölmiðlum á aðfangadag, fórst það fyrir. Ef misbrestur verður á framansögðu er það ávallt skoðað til hlítar.