Borgarstjórnarfundur hófst á mínútuþögn í dag vegna Pawels Adamowicz, sem stunginn var til bana á sunnudag. Pawels Adamowicz, borgarstjóra Gdansk, var minnst á borgarstjórnarfundi í dag með mínútuþögn. Dagur B. Eggertsson hóf mál sitt í borgarstjórn með því að minnast Adamowicz, sem hann sagði hafa haft orð á sér fyrir að vera framsýnn og framsækinn. 

„Hann féll fyrir óskiljanlegu ofbeldi sem í mínum huga er ekkert annað en árás á lýðræðið,“ sagði Dagur sem hefur fyrir hönd borgarinnar sent Gdansk og sendiráði Póllands á Íslandi samúðarkveðjur. 
Paweł Adamowicz, borgarstjóri í Gdansk í Póllandi, lést af sárum sínum á spítala í gær eftir að hann var stunginn á sviði góðgerðarviðburðar sem hann tók þátt í á sunnudag. Adamowicz var borgarstjóri í Gdansk frá því árinu 1998 og þar til hann lést.

Árásarmaðurinn er 27 ára karlmaður sem hefur verið nafngreindur í pólskum miðlum sem Stefan W. Hann er sagður frá Gdansk og á langan sakaferil að baki sér. Honum var sleppt úr fangelsi í síðasta mánuði.