Í morgun var haldin minningar­at­höfn í kirkjunni í Kongs­berg til að minnast þeirra fimm sem létust í árás manns á mið­viku­dag, 13. októ­ber.

Kveikt var á kerti fyrir þau látnu og þeirra minnst, hvers með ein­stökum hætti.

„Við verðum að hjálpa hvoru öðru svo að sár okkur geti fengið tæki­færi til að gróa,“ sagði pró­fasturinn Roar Tønnes­sen við at­höfnina.

„Liv Berit Borge, Hanne Merethe Eng­lund, Gun Marith Madsen, Andréa Meyer, Gunnar Er­ling Sau­ve voru öll tekin frá okkur skyndi­lega með hrotta­fengnum hætti. Fimm fjöl­skyldur hafa misst sinn nánasta. Þrjú voru særð og margir þurftu að flýja frá á­rásar­manninum til að bjarga lífi sínu. Margir ná­grannar og vinir eiga um sárt að binda,“ sagði Tønnes­sen og bætti því við að það væri mikil­vægt að standa saman.

Biskup Noregs tók undir þessi orð Tønnes­sen í sínu á­varpi og sagði að það mikil­vægasta væri að vera til staðar, þó það væri ekki nema til að sitja þögul saman við borð.

Minningar­at­höfninni var streymt í beinu streymi á vef NRK. Hana leiddi presturinn Reidar Aasbø en auk hans voru við at­höfnina norski biskupinn, Jan Otto Myrseth auk fleiri presta og fjölda tón­listar­manna.

Krón­prinsinn og prinsessan voru einnig við­stödd auk dóms­mála­ráð­herrans og yfir­manns neyðar­við­bragða. Kirkjan tekur um tvö þúsund manns í sæti og er sögð hafa verið yfir­full af fólki sem vildi minnast þeirra látnu. Eftir at­höfnina bauð kirkjan til kaffi­boðs sem að prinsinn og prinsessan ætluðu að vera við­stödd.

Hægt er að horfa á at­höfnina hér á vef NRK.