Fundur var haldinn í sendiherrabústað Frakklands í Reykjavík í gær í tilefni 60 ára afmælis Élysée-samningsins. Sendiherrar Frakklands og Þýskalands ræddu um samstarf landanna í núverandi samhengi heimsmála og ítrekuðu mikilvægi þess að varðveita þau tengsl.

Guillaume Bazard, sendiherra Frakklands og Dietrich Becker, sendiherra Þýskalands, ræddu meðal annars um samstarf ríkjanna í tengslum við stríðið í Úkraínu og þær breytingar sem hafa átt sér stað í evrópsku samhengi síðan innrásin hófst fyrir ári síðan.

Élysée-samningurinn var undirritaður 22. janúar 1963 af Charles de Gaulle, þáverandi forseta Frakklands, og Konrad Adanauer Þýskalandskanslara. Samningurinn var talinn mjög mikilvægur fyrir aukna efnahagssamvinnu og litu leiðtogar ríkjanna svo á að með samningnum væru styrjaldir milli ríkjanna úr sögunni. Eftir undirritunina gegndu ríkin síðan lykilhlutverki í þróun Evrópusamstarfsins.

Áhersla var einnig lögð á mikilvægi samningsins í ljósi þeirra póli­tískra breytinga sem gætu átt sér stað í framtíðinni á milli stríðandi fylkinga. Sendiherrarnir litu svo á að það væri einmitt það aukna samstarf milli ríkja sem gegndi lykilhlutverki í að varðveita frið í Evrópu þrátt fyrir sögulega erfiðleika.