Mikill fjöldi gekk í þögulli göngu í Utrecht í kvöld til minningar þeirra sem létust í skotárás síðasta mánudag. Þrír létust og fimm eru særð. Yfirvöld eru enn að meta hvort um hafi verið að ræða hryðjuverkaárás. 

Karlmaður játaði fyrr í dag að hafa síðasta mánudag hafið skotárás í lest í borginni Utrecht í Hollandi. Hann sagðist hafa verið einn að verki. Þrír létust í árásinni og fimm eru særð. Gæsluvarðhald yfir manninum var í dag framlengt um tvær vikur.

Ákæruvaldið í Hollandi er enn að meta hvort aðgerðir hans hafi verið hryðjuverk eða hvort árásin hafi verið drifin áfram af vandamálum í hans einkalífi í bland við öfgafullar hugmyndir.

Þrír aðrir karlmenn voru handteknir í tengslum við árásina en þeim hefur öllum verið sleppt úr haldi. Yfirvöld í Hollandi telja að maðurinn hafi verið einn að verki. Áður hafði verið staðfest að maðurinn þekkti fórnarlömbin ekki með neinum hætti áður en hann réðst að þeim. Maðurinn mun sæta geðrannsókn.

Bréf fannst í bíl mannsins sem ýtt hefur undir grunsemdir lögreglu að árásin hafi átt að vera hryðjuverk.

Greint var frá á BBC.