Í gær fór fram minningarathöfn í borginni Hull, sem var ásamt Grimsby ein helsta miðstöð Íslandsveiða í Bretlandi.
Minnst var 60 sjómanna á þremur togurum sem fórust þennan dag. Það er Lorellu og Roderigo sem fórust árið 1955 og Kingston Peridot sem fórst árið 1968, á svipuðum tíma og annar togari, Ross Cleveland.
Mun aldrei gleymast
Meðal viðstaddra var Lynn Petrini, borgarstjóri Hull, fyrrverandi sjómenn og ættingjar fallinna sjómanna.
„Þetta mun aldrei gleymast. Þeir gáfu líf sitt til þess að fæða þjóðina og þeirra ætti að vera minnst að eilífu,“ sagði viðstödd kona við breska ríkisútvarpið.
Alls fórust 6.000 sjómenn frá Hull milli 1835 og 1980, þar af margir við Íslandsstrendur. Sjómennska var á þessum tíma hættulegra starf en kolanámugröftur. Árið 1968 fékk Hull viðurnefnið „hin dapra borg“.