Minnsta sveinbarn í heimi fær að fara heim í dag. Barnið hefur dvalið á Nagano barnaspítalanum í Japan síðan í október í fyrra.

Móðirin, Toshika, gekk undir keisaraskurð í 24. viku meðgöngunnar vegna þess að hún þjáðist af óeðlilega háum blóðþrýstingi. Barnið vó 258 grömm. Meðal fæðingarþyngd íslenskra barna um 3650 grömm.

Ryusuke Sekino var á stærð við epli þegar hann kom í heiminn.
KYODO

Drengurinn, sem heitir Ryusuke Sekino, var svo lítill að hann gat einungis fengið næringu í gegnum sondu og brjóstamjólk í gegnum bómullarpinna. Eftir sjö mánaða dvöl á sjúkrahúsi er barnið orðið 3238 grömm á þyngd.

Talið er að allt að 60 prósent barna sem fædd eru undir 1000 grömmum fái einhverja heilablæðingu og eru líklegri en önnur að fá hjartatruflanir, öndunarerfiðleika og hættulegar sýkingar.

Lifunarhlutfall slíkra barna í Japan er búið að hækka upp í 90 prósent á undanförnum árum. Meiri líkur eru á að stúlkubörn undir 300 grömmum lifi af en sveinbörn samkvæmt Japan Times.

Minnsta stúlkubarn í heimi fæddist í Þýskalandi árið 2015 og vó 252 grömm.

Ryusuke Sekino og foreldrar.
Getty images