Minnst tveir eru látnir og fimmtán aðrir slasaðir í þýsku borginni Trier eftir að ökumaður keyrði inn í hóp gangandi vegfarenda.

Talsmaður lögreglu sagði á Twitter að „nokkrir“ einstaklingar hafi látist í árekstrinum sem átti sér stað í göngugötu.

Mikill viðbúnaður er á svæðinu.
Fréttablaðið/Getty

Wolfram Leibe, borgarstjóri Trier sagði á blaðamannafundi að ummerkin hafi verið „hræðileg“ og að stúlka sé á meðal þeirra sem létust. Að hans sögn eru allt að fimmtán einstaklingar slasaðir, sumir hverjir alvarlega.

51 ára gamall karlmaður hefur verið handtekinn grunaður um verknaðinn að sögn lögreglu sem hvetur fólk til að forðast miðbæinn. Hinn grunaði er sagður búa á Trier-Saarburg svæðinu.

Sky News greinir frá því að lögregla sé enn á staðnum og tvær þyrlur hringsóli yfir svæðinu. Jólamarkaður er að jafnaði haldinn þar á þessum tíma árs en að þessu sinni varð breyting á því vegna heimsfaraldursins.

Sjónarvitni lýsir því að bifreiðinni hafi verið ekið frá hinu fræga Porta Nigra hliði í átt að markaði og svo yfir á Fleischstrasse þar sem hún lenti á gangandi vegfarendum.

Þá segir annað vitni að um hafi verið að ræða dökkgráa Range Rover-bifreið sem hafi verið keyrt á miklum hraða.

Fréttin var síðast uppfærð klukkan 15:12.