Minnst þrír hafa látið lífið eftir að flugvél hlekktist á í lendingu á Calicut flugvellinum í suðvesturhluta Indlands.

Talið er að flugstjóri vélarinnar sé á meðal þeirra látnu, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. 184 farþegar voru innanborðs, þar af tíu börn auk sjö áhafnarmeðlima.

Flugið var á vegum Air India Express en talsmaður flugfélagsins segir að einhverjir farþegar séu slasaðir. Björgunarstarf stendur enn yfir á slysstað.

Vélin var á leið frá Dúbaí þegar hún rann út af flugbrautinni við lendingu og brotnaði í tvennt, að sögn samgönguyfirvalda. Ljósmyndir frá vettvangi styðja við þær yfirlýsingar.

Atvikið átti sér stað um klukkan 19 að staðartíma og mikið úrhelli var á staðnum.

Subrahmanyam Jaishankar, utanríkisráðherra Indlands, færði farþegum og aðstandendum þeirra samúðarkveðjur á samfélagsmiðlinum Twitter.

Fréttin hefur verið uppfærð.