Minnst tveir eru látnir og níu er saknað eftir að felli­bylurinn Hagi­bis náði landi í Japan í dag. Yfir hundrað manns hafa þegar slasast og leitað á bráða­mót­tökur landsins. Um er að ræða versta felli­byl sem farið hefur yfir landið í rúm­lega sex­tíu ár.

Japanska veður­stofan hefur gefið út fimmta stigs við­vörun, sem er sú hæsta á skalanum. Þá hvatti veður­stofan yfir 45 milljón íbúa í hé­röðum Tokyo, Kanagawa, Saitama, Gunma, Yamanashi og Naga­no til að færa sig í öruggar byggingar eða dvelja á efri hæðum húsa. Í­búum í yfir átta hundruð þúsund heimila í Tokyo var síðan gert að yfir­gefa hús sín af öryggis­á­stæðum í dag.

Flóða­hætta eykst stöðugt

Þó nokkrar ár hafa flætt yfir bakka sína og aur­skriður hafa jafnað heilu húsin við jörðu. Þá hefur regn sett sett svip sinn á landið þar sem vatn flæðir nú um allar götur. Sjávar­mál hefur að sama skapi hækkað til muna. Á á­kveðnum svæðum við ströndina hefur sjávar­mál hækkuð um einn metra og við höfnina í Tokyo hefur það hækkað um hálfan metra.

Mörg þúsund flug­ferðum hefur verið af­lýst og hefur veður­ofsinn haft á­hrif á flest allar sam­göngur landsins, bæði á landi og sjó. Ólgu­sjór og tryllings­legur vindur eru á vestur- og norð­austur­hluta landsins en vindur hefur mælst yfir fimm­tíu metrar á sekúndu.

Gríðarstórar öldur börðu vitann við Kiho hérað þegar Hagibis nálgaðist ströndina.
Fréttablaðið/AP