Minnt tíu létust af völdum sprengingar í Beirut, höfuð­stað Líbanon, fyrr í dag og hundruð slösuðust sam­kvæmt öryggis­sveitum Líbanon. Um er að ræða fyrstu tölur sem hafa birts í kjöl­far sprengingarinnar svo mögu­legt er að tala látinna sé enn hærri.

Heil­brigðis­ráð­herra Líbanon, Hamad Hasan, sagði sprenginuna hafa valdið „mjög miklum fjölda meiðsla.“ Einnig er haft eftir ráð­herranum að heil­brigðis­kostnaður verði felldur niður fyrir alla þá sem slösuðust í sprengingunni.

Röð sjúkra­bíla og slökkvi­liðs­bíla sáust bruna í átt að hafnar­svæðinu, þar sem sprengingin varð, fyrir um það bil hálf­tíma.

Hasan sagði tjón vegna sprengingarinnar vera gríðar­legt. Mynd­bönd af sprengingunni hafa farið eins og eldur um sinu á vefnum og sést þar á hvaða stærðar­gráðu sprengingin er þegar reykjar­mökkur þekur borgina um stund.

Raðir mynduðust inn á spítala borgarinnar.
Fréttablaðið/AFP