Að minnsta kosti 41 manns létust þegar eldur kviknaði í kirkju í Gísa í Egyptalandi í dag. Um fimm þúsund manns voru stödd í Abu Sifin-kirkjunni, sem tilheyrir koptíska söfnuðinum í Egyptalandi, þegar eldurinn kviknaði. Mörg þeirra sem létust tróðust undir þegar kirkjugestir æddu út til að forða sér undan eldinum. Flest hinna látnu voru börn.

Ekki hefur verið gengið úr skugga um orsakir eldsins en Farid Fahmy, prestur í annarri kirkju þar í grenndinni, greindi blaðamönnum AFP frá því að skammhlaup hefði orðið í rafmagnslögnum kirkjunnar.

Abdel Fattah el-Sisi, forseti Egyptalands, vottaði samúð sína í færslu á Twitter-síðu sinni. „Ég samhryggist innilega fjölskyldum þessara saklausu fórnarlamba sem fóru á vit Drottins síns á einum af tilbeiðslustöðum hans.“ Sisi tók fram að hann hefði hringt í koptíska páfann Theódór 2., sem er trúarleiðtogi kristna minnihlutans í Egyptalandi.

Embætti ríkissaksóknara Egyptalands hefur hafið rannsókn á orsökum eldsins. Eldsvoðar eru algengir í Egyptalandi og hafa leitt til dauðsfalla nokkrum sinnum á síðustu árum. Meðal annars létust að minnsta kosti tuttugu manns í mars 2021 þegar kviknaði í hannyrðaverksmiðju í Kaíró.