Minnst átta eru látnir og nokkurra er saknað á ítölsku eyjunni Ischia, sem er rétt vestur af Napolí borg, eftir aurskriðu.

The Guardian greinir frá.

Miklar rigningar hafa verið á eyjunni þar sem aurskriðan féll í bænum Casamicciola Terme snemma í morgun. Aurskriðan streymdi í gegnum bæinn, reif hús upp og sópaði með sér bíla.

Þó nokkurra er sárt saknað eftir aurskriðuna en á meðal þeirra er fjölskylda með tvö börn og par með nýfætt barn, að því er fram kemur í ítölskum fjölmiðlum.

Karlmaður á sextugsaldri hefur verið fluttur á sjúkrahús alvarlega slasaður. Björgunaraðgerðir standa nú yfir á svæðinu

Bærinn er á kafi í drullu eftir skriðuna.
Fréttablaðið/EPA-EFE

Eyjan Ischia er þekkt fyrir náttúrulega heita hveri og eru íbúar eyjunnar um 20 þúsund. Ferjur til og frá eyjunni hafa verið stöðvaðar.

Borgarstjóri eyjunnar, Enzo Ferrandino, hefur hvatt bæjarbúa til að halda sig heima.