Ísraelski herinn gerði loftárásir á byggingu í miðborg Gasa í Palestínu í dag. Heilbrigðisráðuneyti Gasa segir að minnst átta Palestínumenn hafi látist í árásunum, þar á meðal fimm ára gömul stúlka. Ísraelski herinn segir hins vegar að fimmtán manns hafi látist.

Reykur liðast frá stórhýsi í Gasa eftir loftárásir Ísraelshers.
Fréttablaðið/EPA

Skotmark árásarinnar var Taysir al-Jabari, liðsforingi í hernaðarvæng Íslömsku jíhad-hreyfingarinnar í Palestínu. Að sögn ísraelska hersins hafði al-Jabari umsjón með samstarfi hreyfingarinnar við Hamas. Í yfirlýsingu hersins var staðhæft að al-Jabari hefði nýlega verið að mæla fyrir beitingu skotflauga gegn skriðdrekum á hernaðar- og borgaraleg skotmörk innan Ísraels.

Palestínskur slökkviliðsmaður að störfum á vettvangi loftárása í Gasaborg.
Fréttablaðið/EPA

Yair Lapid, forsætisráðherra Ísraels, lét þau orð falla í kjölfar árásarinnar að ríkisstjórn hans myndi ekki leyfa hryðjuverkahópum að leggja línurnar á Gasaströndinni og ógna ísraelskum borgurum.

Ísraelar hafa nú beint flugumferð til Ben-Gurion-alþjóðaflugvallarins í norðurátt, lengra í burtu frá Gasaströndinni, að því er virðist til að búa sig undir frekari átaka svæðinu.

Hlúð að særðum Palistínumanni í sjúkrabifreið á Gasasvæðinu.
Fréttablaðið/EPA

Andrúmsloftið á hernumdu svæðunum í Palestínu hefur verið spennuþrungið undanfarna daga, einkum í kjölfar þess að Ísraelar handtóku palestínska leiðtogann Bassam al-Saadi í Jenín á Vesturbakkanum.

Í yfirlýsingu eftir árásina sagði Íslamskt jíhad: „Óvinurinn hefur hafið stríð þar sem skotmörkin eru á þjóðinni okkar og okkur ber öllum skylda til að verja okkur sjálf og fólkið okkar, og leyfa ekki óvininum að komast upp með aðgerðir sem er ætlað að grafa undan andspyrnunni og áræðni þjóðarinnar.“