Að minnsta kosti 57 greindust með veiruna innanlands í gær en þetta kemur fram á covid.is. Vegna bilunnar í kerfinu náðist þó ekki að bæta inn öllum smitum gærdagsins og munu því rúmlega 40 smit bætast við endanlega tölu smita, um það bil 100 smit er því um að ræða í heildina.

Samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir eru 1367 í einangrun, og fækkar þeim um 17 milli daga, og 2101 í sóttkví, og fækkar þeim einnig milli daga, en mögulegt er að það breytist þegar endanlegar tölur verða birtar á morgun.

Af þeim smitum sem greint er frá á vef covid.is voru 34 með einkenni, en 22 greindust við sóttkvíar- og handahófsskimun og einn við skimun Íslenskrar erfðagreiningar. Ríflega 3300 sýni voru tekin innanlands í gær, þar af tæplega 2100 við einkennasýnatöku, tæplega 1100 við sóttkvíar- og handahófsskimun, og rúmlega 200 við skimun hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Enginn greindist með veiruna á landamærunum en þar voru tekin 253 sýni og eru nú 976 í skimunarsóttkví. Á Landspítala eru nú 24 inniliggjandi og helst sá fjöldi sá sami milli daga en mögulegt er að einverjir hafi lagst inn eða útskrifast.

Í fyrradag greindust 106 með veiruna og voru þá 62 utan sóttkvíar við greiningu. Alls voru 67 fullbólusettir en 35 óbólusettir. Deginum þar áður greindust einnig 57 með veiruna innanlands og var þá um að ræða minnsta fjölda frá 21. júlí síðastliðnum.

Ríkisstjórnin fundar

200 manna samkomubann, eins metra regla, og grímuskylda er nú í gildi á landinu öllu en núverandi reglugerð er í gildi til 13. ágúst. Á landamærunum taka við nýjar reglur þann 16. ágúst sem kveða á um að allir sem hafa tengsl við Ísland þurfi að fara í skimun við komuna til landsins.

Sóttvarnalæknir skilaði í síðustu viku inn blaði til heilbrigðisráðherra en ekki var þar að finna neinar beinar tillögur um áframhaldandi aðgerðir. Ríkisstjórnin kemur til með að funda á Suðurnesjum í dag en ekki liggur fyrir hvort frekari sóttvarnaráðstafanir verði ræddar á fundinum.

Uppfært 11:10:

Í fyrri útgáfu fréttarinnar kom fram að 57 hafi greinst innanlands en vegna bilunar í kerfi almannavarna er raunverulegur fjöldi sýna nær 100. Endanlegar tölur um smit munu birtast á vef covid.is á morgun.