Að minnsta kosti 55 greindust með veiruna innanlands í gær en þetta kemur fram á vef covid.is. Alls eru nú 1170 í einangrun með virkt smit en þeim fækkar um tæplega 70 milli daga. Í sóttkví eru nú 1988 og fjölgar þeim lítillega milli daga.

Tæplega 2400 sýni voru tekin innanlands í gær, af þeim sem greindust voru 44 með einkenni en 11 greindust við sóttkvíar- og handahófsskimun. 27 voru utan sóttkvíar við greiningu en ekki liggur fyrir hversu margir voru bólusettir.

Á landamærunum voru tekin um 340 sýni og eru nú 873 í skimunarsóttkví. Einn greindist með virkt smit við seinni skimun og er beðið eftir mótefnamælingu úr öðru sýni.

Á laugardag greindust 64 með veiruna innanlands en um 2400 sýni voru þá tekin. Á föstudag greindust 82 en þá voru um 2800 sýni tekin. Á landamærunum greindist einn á föstudag en enginn á laugardag með virkt smit.

Smitfjöldi gærdagsins er sá lægsti á einum sólarhring frá 20. júlí síðastliðnum en hafa ber í huga að yfirleitt eru færri sýni tekin um helgar og því erfitt að segja til um hvort smitum fari fækkandi.

30 eru nú inniliggjandi á Landspítala, þar af sex á gjörgæslu, samkvæmt covid.is. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala í gær var þá 31 sjúklingur inniliggjandi, þar af sex á gjörgæslu og þurftu fjórir þeirra á stuðning öndunarvéla að halda. Spítalinn starfar nú á hættustigi og er mikið álag á öllum deildum.

Fréttin hefur verið uppfærð.