Að minnsta kosti 29 eru látnir eftir að jarðskjálfti af stærð 7,2 reið yfir á Haítí í morgun. Upptök skjálftans voru í vesturhluta landsins, skammt frá bænum Saint-Louis du Sud og fannst hann einnig vel í höfuðborginni Port-au-Prince.
Ariel Henry, forsætisráðherra Haítí, staðfesti í dag að skemmdir af völdum skjálftans væru verulegar. Neyðarstigi var lýst í landinu eftir skjálftann og mun það vara í einn mánuð hið minnsta, að því er segir í frétt BBC.
„Hér eru mörg hús ónýt, margir látnir og margir á sjúkrahúsi,“ segir Christelle Saint Hilaire í samtali við AFP-fréttaveituna. Christelle er búsett í vesturhluta landsins, nálægt upptökum skjálftans.
Í frétt BBC er haft eftir Frantz Duval, ritstjóra dagblaðsins Le Nouvelliste á Haítí, að tvö hótel væru meðal þeirra bygginga sem hefðu hrunið í bænum Les Cayes. Bætti hann við að sjúkrahús bæjarins hefði ekki undan að aðstoða fólk sem hafði slasast.
Haítí er í raun enn í sárum eftir öflugan skjálfta sem reið yfir landið í janúar 2010. Upptök skjálftans, sem var 7,0 að stærð, voru nálægt höfuðborginni Port-au-Prince og lagði skjálftinn borgina í rúst.