Borgarráð samþykkti í gær að leggja til 90 milljónir króna til endurnýjunar lýsingar í Laugardalshöll og 140 milljónir til endurnýjunar á gólfi hallarinnar.

Framkvæmdirnar verða boðnar út og eiga að ljúka á þessu ári. Kostnaður við endurnýjun gólfsins er miðað við frumáætlun umhverfis-og skipulagssviðs.

Óskað er eftir að borgarráð heimili umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir vegna endurnýjunar á lýsingu og gólefni í sal Laugardalshallar. Kostnaðaráætlun 2 vegna endurnýjunar á lýsingu er 90 milljónir króna. Frumáætlun vegna endurnýjunar á gólfi er 140 milljónir króna en endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir.

Núverandi lýsing uppfyllir ekki þær kröfur sem gerðar eru til keppnislýsingar og notkunar hússins sem fjölnotahúss, hvað varðar stýringu og neyðarlýsingu segir í bréfi umhverfis-og skipulagssvið. Endurnýja þarf gólfefni vegna vatnstjón sem varð í Laugardalshöll í fyrra.

Áætlað er að framkvæmdum ljúki á árinu 2021. Áður var gert ráð fyrir að endurnýjun gólfs færi fram á árinu 2022-2023. Í fundargerð borgarráðs segir að fyrirséð sé að flýta þurfi þeim framkvæmdum svo unnt sé að taka Laugardalshöll í notkun á ný á þessu ári. Það sé nauðsynlegt að útboðsferli vegna framkvæmda hefjist sem fyrst.

Vatnstjónið varð um miðjan nóvember í fyrra þegar heitavatnslögn brast um miðja nótt. Lekinn uppgötvaðist ekki fyrr en mörgum klukkustundum eftir að hann hófst eða um morguninn. Grindin undir gólfinu, er um 50 ára gömul, og steinull undir verið þar jafn lengi. Ullin dró í sig gífurlega mikið magn af vatninu svo ljóst varð að gólfið var gjörónýtt.