Að minnsta kosti 151 greindist með kórónaveiruna í gær en þetta kemur fram á covid.is. Um er að ræða næst mesta fjölda smita sem hefur greinst frá upphafi faraldursins. Flest smit frá upphafi greindust 30. júli síðastliðinn þegar 154 reyndust smitaðir.

Af þeim sem greindust voru 94 fullbólusettir en 55 óbólusettir. Alls voru 83 utan sóttkvíar við greiningu og voru 133 með einkenni. Alls eru nú 1388 í einangrun með virkt smit og 1988 í sóttkví. Tæplega 4900 sýni voru tekin innanlands í heildina í gær.

Í ljósi fjölda sýna sem nú eru tekin daglega hefur tekið lengri tíma að greina þau og því mögulegt að smitum muni fjölga þegar tölurnar verða uppfærðar á morgun.

Á Landspítala eru nú 18 inniliggjandi en þeim fjölgar um tvo milli daga. Ekki liggur þó fyrir hversu margir útskrifuðust og lögðust inn síðastliðinn sólarhring.

Á landamærunum greindust þrír einstaklingar, þar af einn með virkt smit, en beðið er mótefnamælingar úr tveimur sýnum. 1136 eru nú í skimunarsóttkví en 460 sýni voru tekin við landamærin í gær.

Forstjóri Landspítala á fundi dagsins

Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis hafa boðað til upplýsingafundar klukkan 11 í dag þar sem farið verður yfir stöðu mála með tilliti til stöðu Covid hér á landi.

Á fundinum verða Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.

Landspítali er nú á hættustigi en innlögnum hefur fjölgað stöðugt síðastliðna daga og er staðan á bráðamóttökunni slæm.

Fréttin hefur verið uppfærð.