Sjúkra­hús á Haítí eru yfir­full eftir 7,2 stiga jarð­skjálfta sem skók landið á laugar­dag. 1297 dauðs­föll hafa verið stað­fest og að minnsta kosti 5700 eru særðir.

„Göturnar eru fullar af öskrum. Fólk er að leita að ást­vinum sínum eða vistum, læknis­hjálp, vatni,“ sagði erk­idjákninn Abia­de Lozama.

Hátt í 14.000 hús voru lögð í rúst í skjálftanum sem lagðist einna verst á suð­vestur­horn landsins, þá sér­stak­lega svæðið í kringum bæinn Les Ca­yes. Í borginni Jeremi­e í norð­vestri, sem einnig er illa leikin eftir skjálftann, neyddust læknar til að hlúa að særðum á sjúkra­börum undir trjám og úti í veg­köntum þar sem sjúkra­hús­pláss eru upp­urin.

„Við erum með al­var­legt á­stand á höndum. Mikil­vægar stofnanir eru ó­starf­hæfar í þessum töluðu orðum og þær sem eru starf­hæfar eru yfir­fullar af sjúk­lingum,“ sagði Jerry Chandler, yfir­maður al­manna­varna í Haítí í sam­tali við frétta­stofu Reu­ters.

Land í sárum

Jarð­skjálftinn er að­eins nýjasta á­fallið sem dunið hefur yfir Haítí en þjóðin er enn í sárum eftir síðasta stóra skjálfta sem reið yfir landið árið 2010 og tók líf hátt í 300.000 manns. Skjálftinn á laugar­dag hefur vakið upp slæmar minningar fyrir marga lands­menn.

„Á­fallið er að snúa aftur. Ég er heima og við erum að velta því fyrir okkur, eigum við að sofa inni? Eigum við að sofa úti á verönd?“ sagði hin 62 ára gamla Lydi­e Jean-Bapti­ste.

Haítí er að ganga í gegnum mikla efna­hags­kreppu í kjöl­far Co­vid-19 far­aldursins og blóðugra gengja­stríða auk þess sem stjórn­mála­kreppa er í landinu eftir að for­setinn Jovenel Moïse var myrtur af á­rásar­mönnum á heimili sínu í júlí síðast­liðnum.

Mánaðar­langt neyðar­á­stand

For­sætis­ráð­herra landsins, Ariel Henry, hefur lýst yfir mánaðar­löngu neyðar­á­standi og hvatt fólk til að sýna sam­stöðu.

„Það mikil­vægasta er að endur­heimta eins marga eftir­lif­endur og mögu­legt er úr rústunum. Við höfum lært að sjúkra­hús, þá sér­stak­lega þau í Les Ca­yes, séu yfir­full af slösuðu og brotnu fólki,“ sagði hann á laugar­dag.

Al­þjóða­sam­fé­lagið hefur heitið að­stoð, Joe Biden Banda­ríkja­for­seti lofaði til að mynda tafar­lausum við­brögðum frá Banda­ríkjunum. Þá hefur ná­granna­ríkið Dóminíska lýð­veldið boðist til að senda mat og sjúkra­gögn og stjórn­völd á Kúbu hafa sent rúm­lega 250 lækna til Haítí.