Að minnsta kosti 119 einstaklingar greindust með veiruna innanlands í gær en þetta kemur fram á covid.is. Af þeim sem greindust voru 106 með einkenni en 13 greindust við sóttkvíar- og handahófsskimun. Utan sóttkvíar við greiningu voru 80 manns en ekki liggur fyrir hlutfall bólusettra meðal smitaðra.

Alls eru nú 1302 í einangrun með virkt smit en þeim fækkar um rúmlega 70 milli daga. Í sóttkví eru nú 1755 manns, örlítið fleiri en í gær. Ríflega 3400 sýni voru tekin innanlands í gær.

Á Landspítala eru nú 27 inniliggjandi en þeim fækkar um tvo milli daga. Ekki liggur þó fyrir hversu margir útskrifuðust eða lögðust inn. Af þeim sem eru inniliggjandi eru fimm á gjörgæslu, þar af fjórir í öndunarvél.

Á landamærunum eru enn tiltölulega fáir að greinast en einn fullbólusettur greindist þar í gær. Síðastliðna fimm daga hafa því fjórir greinst á landamærunum, tveir fullbólusettir og tveir óbólusettir. 331 sýni var tekið við landamæraskimun í gær og eru nú 894 í skimunarsóttkví.

Þórólfur, Víðir og Páll á upplýsingafundi

Boðað hefur verið til upplýsingafundar klukkan 11 í dag þar sem farið verður yfir stöðu mála en þar verða Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn ásamt Páli Matthíassyni, forstjóra Landspítala.

Faraldurinn virðist vera í línulegum vexti en reglulega fer fjöldi smita yfir 100. Ríkisstjórnin tilkynnti fyrr í vikunni að samkomutakmarkanir sem nú eru í gildi, og áttu að renna út á föstudag, myndu gilda í tvær vikur til viðbótar.

Fréttin hefur verið uppfærð.