Að minnsta kosti 118 einstaklingar greindust með kórónaveiruna innanlands í gær að því er kemur fram á covid.is en af þeim sem greindust voru 51 í sóttkví við greiningu. 80 voru fullbólusettir og bólusetning hafin hjá fjórum einstaklingum til viðbótar.

Alls eru nú 966 í einangrun með virkt smit og fjölgar þeim um 114 milli daga. Einnig fjölgar í sóttkví um rúmlega 250 og eru nú 2508 í sóttkví. Á sjúkrahúsi eru nú 10 inniliggjandi, þar af tveir á gjörgæslu.

Færri sýni voru tekin innanlands í gær heldur en í fyrradag, tæplega 3600 við einkennasýnatöku og 1253 við sóttkvíar- og handahófsskimun. 305 sýni voru tekin við landamæraskimun.

Á landamærunum hafa tiltölulega fáir greinst síðastliðna daga en þrír greindust með veiruna þar í gær. Í heildina hafa 10 greinst á landamærunum síðastliðna viku. Alls eru nú 962 í skimunarsóttkví.

Mögulegt er að fleiri muni greinast með veiruna eftir því sem líður á daginn þar sem það hefur reynst tímafrekt að greina þann mikla fjölda sýna sem nú er tekinn daglega innanlands. Í ljósi þess er mögulegt að metfjöldi smita greinist í dag.

Í fyrradag greindust 122 með veiruna innanlands og er það næst mesti fjöldi smita sem hefur greinst á einum sólarhring frá upphafi faraldursins en daginn þar áður höfðu 123 smit greinst. Af þeim sem greindust í fyrradag voru 97 utan sóttkvíar við greiningu. 94 voru fullbólusettir auk þess sem bólusetning var hafin hjá tveimur einstaklingum til viðbótar.

Almannavarnir hafa boðað til upplýsingafundar í dag til að ræða stöðu mála vegna COVID-19 en á fundinum verða þau Kamilla S. Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, Alma D. Möller landlæknir og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn almannavarna.

Fréttin hefur verið uppfærð.