Að minnsta kosti 116 manns greindust með COVID-19 í gær en þetta kemur fram á covid.is. Af þeim sem greindust voru 103 með einkenni en 13 greindust við sóttkvíar- og handahófsskimun. 71 var fullbólusettur en 43 var óbólusettur. 74 voru utan sóttkvíar við greiningu.

Alls eru nú 1329 í einangrun með virkt smit en margir virðast hafa útskrifast milli daga. Fjöldi í sóttkví helst um það bil sá sami en 1941 eru nú í sóttkví. Ríflega 3500 sýni voru tekin til greiningar innanlands í gær.

Í fyrradag greindust 109 smit samkvæmt uppfærðum tölum en þeim fjölgaði um eitt smit frá fyrstu tölum.

Fjögur smit greindust á landamærunum en af þeim voru þrír með virkt smit á meðan beðið er eftir mótefnamælingu úr einu sýni, þrír voru óbólusettir en einn bólusettur. 1166 eru nú í skimunarsóttkví en tæplega 320 sýni voru tekin í gær.

Á Landspítala eru nú 16 inniliggjandi samkvæmt upplýsingum á covid.is. Samkvæmt upplýsingum frá Landspítala í gær voru tveir á gjörgæslu, þar af annar í öndunarvél. Þrír voru lagðir inn á mánudag og einn útskrifaður. Ekki liggur fyrir hvort einhverjir lögðust inn í gær eða útskrifuðust.

Um það bil þúsund manns eru nú bólusettir daglega og er þar helst um að ræða kennara og skólastarfsfólk sem hlýtur örvunarskammt af bóluefni Pfizer eftir að hafa fengið Janssen í vor. Til stendur að bjóða öðrum sem fengu Janssen örvunarskammt síðar í mánuðinum.

Velferðarnefnd Alþingis kemur saman í dag á fjarfundi til þess að ræða stöðuna vegna faraldursins. Gestir fundarins verða Alma Möller landlæknir, Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, staðgengill sóttvarnalæknis, Ingileif Jónsdóttir, prófessor í ónæmisfræðum, Már Kristinsson, yfirlæknir smitsjúkdómadeildar Landspítala, og Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.

Fréttin hefur verið uppfærð.