Að minnsta kosti 112 manns greindust með kórónaveiruna innanlands í gær en þetta kemur fram á covid.is. Mögulegt er að endanlegur fjöldi verði meiri þar sem mikinn tíma hefur tekið að greina þann fjölda sýna sem nú eru tekin.

Af þeim sem greindust í gær voru 80 utan sóttkvíar. 73 voru fullbólusettir og bólusetning hafin hjá tveimur til viðbótar en 35 voru óbólusettir. 104 voru með einkenni en átta greindust við sóttkvíar- og handahófsskimun.

Alls eru nú 1072 í einangrun með virkt smit og fjölgar þeim um 116 milli daga. Einnig fjölgar lítillega í sóttkví og eru nú 2590 í sóttkví. Örlítið færri sýni voru tekin innanlands í gær en síðustu daga eða rúmlega 4300.

Í fyrradag greindust 129 með veiruna en þar sem enn var verið að greina sýni í gær lá endanleg tala ekki fyrir fyrr en nú. Um er að ræða mesta fjölda smita á einum sólarhring frá upphafi faraldursins en næst flest smit á einum sólarhring greindust á þriðjudag þegar 123 greindust.

Á landamærunum greindist einn með veiruna við seinni skimun og var sá farþegi óbólusettur. Tæplega 370 sýni voru tekin á landamærunum í gær og eru nú 1080 í skimunarsóttkví.

Tíu eru inniliggjandi á spítala vegna COVID-19.

Fólk sé skynsamt um helgina

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði í samtali við Fréttablaðið í gær að mikil óvissa væri nú í faraldrinum og mikilvægt að fólk fari varlega. „Við erum að sjá smit út um allt land og í öllum aldurshópum. Við erum að horfa á kannski upphafið á stærstu bylgjunni hingað til,“ sagði Víðir.

Hann beindi þeim tilmælum til fólks sem ætlar sér að ferðast um verslunarmannahelgina að hafa skynsemina að vopni og ganga hægt um gleðinnar dyr. „Við treystum á að fólk sé skyn­samt og skilji þessa stöðu með þennan fjölda smita sem eru í gangi og fari var­lega.“

Fréttin verður uppfærð.