Minnst 110 létust í árásum Boko Haram í norðausturhluta Nígeríu á sunnudag. Þetta er haft eftir talsmönnum Sameinuðu þjóðanna í landinu.

Árásin átti sér stað við þorpið Koshobe þar sem árásarmennirnir réðust á almenna borgara úti á hrísgrjónaökrum. Samkvæmt sjónarvottum var fórnarlömbunum safnað saman og þau bundin áður en árásarmennirnir tóku þau af lífi með því að skera þau á háls.

Muhammadu Buhari, forseti Nígeríu, hefur fordæmt árásina og segir „landið allt hafa verið sært með þessum tilgangslausu morðum“.

Þetta er ein hræðilegasta árás á svæðinu síðastliðna mánuði en í síðasta mánuði létust 22 akuryrkjubændur í árás Boko Haram.