Að minnsta kosti 108 manns greindust með kórónaveiruna innanlands í gær en þetta kemur fram á covid.is. Mögulegt er að smitum fjölgi þar sem tíma hefur tekið að greina þann fjölda sýna sem tekin eru um þessar mundir.

Af þeim sem greindust voru 54 fullbólusettir en 45 óbólusettir. 70 voru utan sóttkvíar við greiningu. Tæplega 3800 sýni voru tekin innanlands í gær.

Alls eru nú 1937 í sóttkví en þeim fækkar um rúmlega 200 milli daga. Í einangrun eru nú 1304 en þeim fjölgar um 60 milli daga. Sextán eru nú inniliggjandi á sjúkrahúsi, samkvæmt upplýsingum frá því í gær voru þá tveir á gjörgæslu og annar þeirra í öndunarvél.

Á landamærunum greindist einn einstaklingur með veiruna og var sá óbólusettur. 390 sýni voru tekin við landamæraskimun í gær og eru nú 1158 í skimunarsóttkví.

Síðastliðinn föstudag greindist metfjöldi smita innanlands þegar 154 greindust með veiruna. Af þeim var 101 fullbólusettur en 43 óbólusettir. 97 voru utan sóttkvíar við greiningu.

Færri smit greindust á laugardag og á sunnudag þar sem töluvert færri sýni voru tekin. 86 smit greindust á laugardag og 68 á sunnudag. Í heildina voru 76 utan sóttkvíar við greiningu á laugardag og sunnudag. 105 voru fullbólusettir en 37 óbólusettir.

Þórólfur og Víðir fara yfir stöðu mála

Boðað hefur verið til upplýsingafundar í dag þar sem farið verður yfir stöðu mála er varðar framgöngu COVID-19 hér á landi. Á fundinum verða þeir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir, og Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn.

Fréttin hefur verið uppfærð.