Líkurnar á því að öldungadeild Bandaríkjaþings sakfelli Donald Trump fyrir embættisglöp fara minnkandi eftir að fjölmargir þingmenn Repúblikanaflokksins hafa opinberlega sagt að þeir ætla að sýkna forsetann fyrrverandi. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Trump hefur verið ákærður af fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir að hvetja til uppreisnar með því að hafa ítrekað haldið því fram að niðurstöðurnar úr forsetakosningunum hafi verið rangar en stuðningsmenn brutust á endanum inn í þinghúsið.
Demókrataflokkurinn, sem nú fer með meirihluta í báðum deildum þingsins, tilkynnti í vikunni að réttarhöldin gegn Trump muni hefjast á mánudaginn.
Repúblikanaflokkurinn var fljótur að svara á þá leið að enginn möguleiki væri á því að Trump yrði sakfelldur en sautján þingmenn flokksins þurfa að kjósa með því að sakfella Trump svo það gerist.
Á fréttavef CNN er því haldið fram að langflestir Repúblikanar vilja sýkna Trump og örfáir vilja sakfella hann. Þá halda þingmenn flokksins því fram að ástandið í stjórnmálum landsins hafi róast og nú eigi að horfa fram á veginn.
„Það eru engar líkur á að sakfellingu,“ er haft eftir Roger Wicker þingmanni Mississippi ríkis á vef CNN.