„Þetta var ekki í fyrsta skipti sem ég hef lent í svona ofsóknum af hálfu þessarar konu,“ sagði Margrét Friðriksdóttir, ritstjóri Fréttarinnar, í skýrslutöku fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í aðalmeðferð máls Semu Erlu Serdar, formanns Solaris, gegn henni í dag. Margréti er gefið að sök hótanir í garð Semu Erlu á ágústkvöldi árið 2018.

Það er óhætt að segja að andrúmsloftið í dómsalnum hafi verið fremur þungt og mátti finna miklar tilfinningar og spennu á milli Semu Erlu og Margrétar. Dómari tók á tímapunkti tíma til að biðja Margréti um að hafa sig hæga. Sema óskaði eftir að Margrét færi út á meðan hún gæfi skýrslu. Hún ætti ekki að þurfa sitja undir áreiti frá henni. Dómari bauð Margréti að fara út úr dómsal í annað herbergi til að fylgjast með sem hún afþakkaði. Arnar Þór Jónsson lögmaður og verjandi bað skjólstæðing sinn, Margréti, einnig um að hafa sig rólega.

Morðhótanir og hatursorðræða

Aðalmeðferð í máli Semu Erlu gegn Margréti er sem fyrr segir yfirstandandi Héraðsdómi Reykjavíkur. Málið snýr að meintum morðhótunum og hatursorðræðu Margrétar í garð Semu Erlu fyrir um það bil fjórum og hálfu ári.

Áður en aðalmeðferð málsins hófst sagðist Margrét bjartsýn á að málið færi sér í hag og fagnaði hún því að það fengi loksins efnislega málsmeðferð fjórum og hálfu ári síðar.

Hún segir þær Semu Erlu ekki hafa verið í samskiptum frá því að málið átti sér stað í ágúst árið 2018.

„Gjörsamlega snarbiluð“

Sema Erla sagði í sinni skýrslutöku að henni hafi stafað og stafaði enn ógn af Margréti. „ Hún er mjög hættuleg,“ sagði Sema Erla jafnframt fyrir dómi og bætti við að heiftin í Margréti hafi verið rosalega mikil. Hún hefði verið „gjörsamlega snarbiluð“ þetta kvöld.

Á meðan Sema Erla lýsti kvöldinu og aðförum Margrétar gagnvart sér mátti heyra í Margréti flissa. „Ég trúði því að hún ætlaði að drepa mig þegar hún var að segja það,“ sagði Sema Erla og vakti athygli á því að Margrét væri hlægjandi inni í salnum á meðan hún væri að gefa skýrslu.

Semu Erlu og Margréti greindi á um hvaða orð fóru þeirra á milli þetta kvöld. Sema Erla sagði fyrir dómi Margréti hafa sagt: „I will kill you, you evil fucking bitch,“ eða eitthvað í þá áttina. Á meðan Margrét minntist þess að hafa sagt eitthvað á þessa leið: „I feel sick for you, you evil witch. Go and fucking kill yourself you evil witch.“

Móðganir frekar en hótanir

Margrét lýsti kvöldinu fyrir dómara og en hún sagði að henni hafi fundist mjög að sér vegið og að hún hafi verið reið. „Mér fannst þetta algjör fasismi og ógeðsleg framkoma,“ segir Margrét um framkomu Semu Erlu og fleiri í hennar hópi gagnvart henni þetta kvöld. Henni hafi verið vísað út af skemmtistað vegna skoðana sinna vegna Semu Erlu.

Margrét túlkar orðaskipti sín við Semu Erlu sem móðganir frekar en hótanir. Hún segist ekki muna nákvæmlega hvað hún sagði við Semu Erlu. Hún hafi talað ensku og sagt eitthvað á þessa leið: „I feel sick for you, you evil witch. Go and fucking kill yourself you evil witch.“

Aðspurð nánar út í orð sín segir Margrét orðin í raun þýða eins og „stökktu fram af kletti“ á íslensku. Hún átti þó erfitt með að muna smáatriði enda „gríðarlega langt síðan, að verða komið á fimmta ár.“

Margrét greindi jafnframt frá því að hún hafi beðið Semu Erlu afsökunar á hegðun sinni daginn eftir og þar með hafi hún talið að málinu væri lokið. Sema Erla hafi þó aldrei svarað afsökunarbeiðninni, „svo kaldrifjuð er þessi kona.“

Valdið miklu hugarangri

Aðspurð hvaða áhrif líflátshótanir hefðu haft á sig sagði Sema Erla málið hluta af mun stærri atburðarás sem hafi stigmagnast árum saman. Málið hafi verið átakanlegt og að hún sé fegin að enginn hafi slasast þetta kvöld. Málið hafi haft áhrif á hana og að henni hafi stafað ógn af Margréti og geri enn. Það hafi valdið henni og fjölskyldu hennar miklu hugarangri.

Sema Erla greindi frá því að hún hafi upprunalega ætlað að kæra Margréti fyrir hótanir og líkamsárás en lögregla hafi tjáð henni að þar sem hún bæri ekki áverka gæti hún ekki kært fyrir líkamsárás. Margrét hafi þó reynt að ráðast á sig með líkamlegu afli.