Gestný Rós Guðrúnardóttir minnist systur sinnar, Maríu Óskar sem fannst látin þann 3. júlí síðastliðinn, með hlýju í hjarta. Hún hefur nú stofnað styrktarreikning til að hjálpa börnum Maríu með útfararkostnað.

María Ósk lætur eftir sig fjögur börn á aldrinum 12 til 26 og tvö barnabörn.

„Hún varð amma frekar ung, var ekki orðin fertug. Ég sagði alltaf: Vá ég trúi ekki að þú sért amma, þú ert fallegasta amma sem ég veit um. Mér leið líka alltaf eins og hún væri bara mín önnur mamma. Alveg fram á unglingsár og mér líður stundum þannig ennþá. Ég leit oft á börnin hennar sem systkinin mín því ég var nær þeim í aldri,“ segir Gestný.

„Hún eignaðist dóttur sína þegar hún var 17 ára og svo eignaðist dóttir hennar dóttur sína þegar hún var 17 ára.“

Handlagin og elskuleg

María Ósk var handlagin og elskaði að prjóna að sögn Gestnýjar. Hún var mikill fagurkeri og með sinn eigin stíl og var alltaf hlýlegt á heimili hennar.

„Hún var alltaf að prjóna sokka. Maður vonaðist alltaf eftir því að fá næstu sokka sem hún var að prjóna því þeir voru svo flottir. Hún var handlagin og gat gert allt og lét ekkert stoppa sig,“ segir Gestný og minnist þess þegar hún kom upp vegg á heimilinu og bjó til nýtt herbergi. „Hún bara gerði allt sjálf.“

Hún hafi elskað allt gamaldags og hafi fengið dellu fyrir alls konar hlutum.

„Einu sinni fékk hún æði fyrir gömlu veggfóðri og eldgömlum sængurverum. Þá snerist allt um að finna meira af því og sauma til og laga. Það var alltaf fallegt og hlýlegt heima hjá henni því hún setti allt hjartað í umhverfið sitt,“ segir Gestný og bætir við að systir hennar hafi verið mikill húmoristi.

„Allir segja: Mæja er svo skemmtileg! Það er ekki hægt að lýsa henni öðruvísi. Hún er bara svo skemmtileg og var alltaf með svo áhugaverðar hugmyndir. Hún fór oft í útilegur með börnunum og eldaði besta mat í heimi. Hún var fyrst og fremst mamma og elskaði börnin sín af öllu hjarta. Hún var dásamleg manneskja.“

Þeim sem vilja styrkja ástvini Maríu Óskar er bent á þennan styrktarreikning:

Kennitala: 130487-3009

Reikningur 0370-26-018860