Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur skilað minnisblaði til Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra um breytingar á samkomutakmörkunum. Minnisblað Þórólfs verður til umræðu á ríkisstjórnarfundi í dag og von er á tilkynningu um komandi aðgerðir.

Tíu manns greindust með kórónaveiruna innanlands um síðustu helgi en allir voru þeir sem smituðust í sóttkví við greiningu.

Þórólfur segir jákvætt að þeir sem greindust hafi verið í sóttkví en áréttar þó að varlega þurfi að fara í að aflétta gildandi aðgerðum. Eins og staðan er í dag er 20 manna samkomubann, grímuskylda og tveggja metra fjarlægðarregla.

Ný reglugerð um aðgerðir á landamærunum tók gildi fyrir viku. Þórólfur segir að aðgerðirnar sem ráðist var í á landamærum hafi gefið góða raun.