Krapaflóð féll úr Geirseyrargili á Patreksfjörð í gærmorgun. Ofanflóðavarnir þar eru í forgangi og munu rísa á komandi árum. Framkvæmdir við tvo varnargarða ofan við Vatnseyrarsvæðið eru langt komnar en þær voru í miklum forgangi á landsvísu. Geirs­eyrargil er hins vegar eftir.

„Nú þarf að fara að verja svæðið undir Geirseyrargili fyrir svona hættum. Það er alveg óvarið enn þá,“ segir Óliver Hilmarsson, ofanflóðasérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands. Hann segir þetta einnig vera í mjög háum forgangi. „Þetta var lítið flóð og ógnar ekki húsum, en minnir óþægilega á að hættan er til staðar,“ segir hann um krapaflóðið sem féll í gær.

„Við sátum inni á kaffistofu í ráðhúsinu og heyrðum í flóðinu. Okkur var brugðið. Við áttuðum okkur ekki strax á því að um flóð væri að ræða,“ segir Þórdís Sif Sigurðardóttir, sveitarstjóri Vesturbyggðar. Strax var brugðist við og síðar um daginn var fólki boðið að koma í safnaðarheimilið og ræða við starfsfólk Rauða krossins en atburðir eins og þessir geta ýft upp gömul sár.

Það var 22. janúar árið 1983 þegar tvö flóð féllu á bæinn, það fyrra úr Geirseyrargili og seinna úr Litladalsá. Sex ára stúlka og fullorðin feðgin létust í fyrra flóðinu, sem öll voru innandyra á heimilum sínum. Kona á sextugsaldri lést utandyra í því seinna. Fyrir utan mannfall var eignatjón mikið og tryggingar bættu íbúum lítið. Í áratugi báru Patreksfirðingar harm sinn í hljóði.

„Við vorum að vonast til þess að þetta myndi ekki gerast en það eru engin hús ofarlega í þessum farvegi og við erum betur stödd en oft áður,“ segir Þórdís. „Ég hugsa að almennt séð sé fólki hérna á Patreksfirði svolítið brugðið.“

Samkvæmt Þórdísi er forhönnun á vörnum fyrir Geirseyrargilið í gangi. Áætlað var að funda með Ofanflóðasjóði og Veðurstofunni síðar í vetur til að ræða möguleikana. Hugsanlega verður þeim fundi flýtt í ljósi nýliðinna atburða. Samkvæmt áætlun Ofanflóðasjóðs á forhönnun garðanna að ljúka árið 2023, framkvæmdir að hefjast árið 2024 og ljúka árið 2028.

Eftir stór snjóflóð sem féllu á Flateyri í janúar árið 2020 var ákveðið að gera nýtt hættumat fyrir sex bæjarfélög, á Vestfjörðum, Tröllaskaga og Austfjörðum. Patreksfjörður var ekki þar á meðal.

Spurður um þetta atriði segir Óliver að þegar sé til hættumat fyrir Patreksfjörð þar sem bent sé á þessa hættu. Ekki séð þörf á endurmati eins og gert var í kjölfar flóðsins á Flateyri.