„Eitt af því sem hefur ollið mér hvað mestum vonbrigðum er þátttaka Háskóla Íslands í ofbeldi gegn flóttafólki, en HÍ hefur í mörg ár þegið greiðslur fyrir að gera líkamsrannsóknir á ungu flóttafólki til að „staðfesta" að það sé að segja rétt til um aldur,“ segir Elínborg Harpa Önundardóttir aktívisti um framkvæmd tanngreininga á flóttafólki í Háskóla Íslands.

Hún segir rannsóknirnar hafa átt sér stað í tómarúmi innan Háskóla Íslands í mörg ár. „Mér finnst þetta minna óþægilega mikið á hausamælingar, svona nútíma hausamælingar. Þessar líkamsrannsóknir, sem eru í formi tanngreininga, áttu sér stað í algjöru tómarúmi í mörg ár, þar sem enginn samningur var til staðar, engin siðanefnd eða sérfræðingar í málefnum flóttafólks höfðu komið að ákvörðuninni og framkvæmdinni. Sem er alveg sturlað útaf fyrir sig, ekki síst í ljósi þess að í rauninni er verið að gera líkamsrannsóknir á börnum og ungmennum án þess að þau geti gefið upplýst samþykki.“

Jón Atli Benediktsson rektor Háskóla Íslands sat fyrir svörum nýverið um rannsóknir á flóttafólki í helgarblaði Fréttablaðsins og sagði niðurstöðu starfshóps háskólaráðs að setja ætti skýrari skilyrði og ramma utan um aðkomu HÍ. „Að því flókna og viðkvæma ferli sem fer í gang þegar grunur leikur á að umsækjendur um alþjóðlega vernd segi ekki rétt til aldurs í von um að njóta ríkari verndar. Verksamningur um þetta yrði einungis til eins árs en endurskoðun hans hæfist strax að níu mánuðum liðnum. Á samningstímanum yrði fylgst með þróun mála varðandi aldursgreiningar almennt, siðferðileg álitaefni og aðferðir við aldursgreiningar,“ sagði Jón Atli.

HÍ hafi tekið afstöðu gegn mannréttindum

Elínborg segir þau siðferðilegu álitaefni sem kvikna og aðferðirnar merki um að Háskóli Íslands hafi tekið skýra afstöðu gegn mannréttindum flóttafólks og barna á flótta. „Valið er: annaðhvort ferðu í þessa tanngreiningu eða við tökum þig sjálfkrafa sem fullorðnum einstaklingi.

Það er til í það minnsta eitt staðfest dæmi þar sem barn var metið ranglega fullorðið eftir rannsókn við HÍ. Afleiðingarnar sem slíkt hefur á líf barns á flótta eru gífurlegar, en það er svipt öllum réttindum sem börn njóta annars. Núna, eftir að þetta var mikið í umræðunni og margir, bæði innan skólans og utan, settu sig á upp móti því að HÍ sæi um framkvæmd tanngreininga, er kominn samningur á milli HÍ og ÚTL. HÍ hefur neitað að birta umsagnir vísindasiðanefndar og jafnréttisnefndar um málið og að mínu mati er mjög auðvelt að fylla í eyðurnar hvers vegna það er.

Staðreyndin er sú að Háskóli Íslands hefur með þessu tekið skýra afstöðu gegn mannréttindum flóttafólks og barna á flótta,“ segir Elínborg sem segir það hafa vakið furðu sína að Ragna Árnadóttir, varaformaður Rauða Krossins studdi tanngreiningar. „Þrátt fyrir að flóttamannadeild Rauða Krossins og lögfræðingar á þeirra vegum hafi sett sig eindregið á móti þessum greiningum.“