Eiríkur Bergmann, stjórnmálafræðingur, segir fjöldi flokka sem mælast inni á þingi stærstu tíðindi kosninganna, fari þær eins og kannanir benda til. Hann segir stjórnmálaflokka þurfa að hugsa stjórnarmyndun upp á nýtt og minnihlutastjórn verði að koma til greina. Hann er gestur Fréttavaktarinnar sem sýnd er kl. 18:30 á Hringbraut í kvöld.
Getum hætt að tala um fjórflokkinn
„Myndin hefur verið aðeins að skýrast. Tölurnar fóru á flot fyrir viku eða tveimur en manni sýnist þær aðeins að setjast. Ef maður skoðar könnun Fréttablaðsins eru helstu tíðindin þau að ríkisstjórnin er löngu fallin og það blasir við,“ segir Eiríkur Bergmann.
Enn mælist níu flokkar inni á þingi. „Og það eru auðvitað stóru tíðindi þessarar kosningabaráttu. Það er búið að slá hvert metið á fætur öðru,“ segir Eiríkur. Sjö flokkar hafi í fyrsta sinn komist á þing 2016, átta 2017 og nú stefni allt í níu flokka.
Eiríkur Bergmann segir um að ræða gjörbreytta stöðu og um það bil hægt að lýsa yfir andláti fjórflokksins svokallaða, sem burði í íslenska kosningakerfinu. Breytingarnar hafi byrjað eftir hrun.
„Og ég myndi segja að fari kosningarnar sem horfir þá hafi orðið varanleg breyting á flokkakerfinu og við getum bara hætt því að tala um fjórflokkinn sem eitthvað merkingarbundið atriði,“ segir Eiríkur. Utan þess að þeir flokkar séu þeir einu sem endist almennilega og verði líklega alltaf til staðar.
Ekki endilega erfiðara að hafa fleiri flokka í stjórn
Eiríkur segist ekki vera sannfærður um að það sé rétt sem sumir segja, að það sé alltaf erfiðara að vera með fleiri flokka í ríkisstjórn heldur en færri.
„Ég held að þegar þú ert á annað borð kominn með fjölflokka ríkisstjórnir þá skiptir kannski ekki alveg sköpum hvort að þeir séu þrír, fjórir eða fimm sem að starfa saman,“ segir Eiríkur. Það fari eftir leiðtogum, málefnum sem uppi eru hverju sinni og segist Eiríkur ekki sannfærður um að flækjustigið verði meira.
Eiríkur segir aðspurður að í fimm flokka ríkisstjórn muni ekki stefna eins flokks geta orðið ráðandi. Hann minnir á að ríkisstjórnin er ekki fjölskipað stjórnvald sem tekur sameiginlegar ákvarðanir, heldur sé ráðherraræði við lýði hérlendis.
„Og kannski verða samsteypustjórnir enn meira því marki brenndar, að ráðuneytin veðri bara svona síló hvert fyrir sig, með sína málaflokka.“
Auknar líkur á minnihlutastjórn
Hann segir líka hægt að sjá fyrir sér að fjölgun flokkanna muni fela í sér aukinn möguleika á minnihlutastjórnum. Staðan nú kalli á að þetta sé hugsað upp á nýtt.
„Það getur verið öflug staða fyrir stjórnmálaflokk að taka ekki sæti í ríkisstjórn en styðja hana eigi að síður gegn falli, ná í gegn tilteknum málum og fengið þannig kosti beggja, að vera innan stjórnar í andstöðu við hana,“ segir Eiríkur.
Slíkt tíðkast á hinum norðurlöndunum, utan Finnlands. Eiríkur nefnir Danska þjóðarflokkinn sem dæmi um flokk sem styrkst hefur á þann veg.
„En það kallar líka á það, sem ekki hefur gerst í aðdraganda þessara kosninga, að flokkarnir skipi sér í sveitir, það verði til blokkir og að þeir geti þá mögulega bent á leiðtoga annars stjórnmálaflokks sem sinn forsætisráðherra eins og til dæmis er gert í Danmörku. Þar erum við ekki stödd ennþá.“
Fréttavaktin er í opinni dagskrá á Hringbraut kl. 18:30 í kvöld.