Ei­ríkur Berg­mann, stjórn­mála­fræðingur, segir fjöldi flokka sem mælast inni á þingi stærstu tíðindi kosninganna, fari þær eins og kannanir benda til. Hann segir stjórn­mála­flokka þurfa að hugsa stjórnar­myndun upp á nýtt og minni­hluta­stjórn verði að koma til greina. Hann er gestur Frétta­vaktarinnar sem sýnd er kl. 18:30 á Hring­braut í kvöld.

Getum hætt að tala um fjór­flokkinn

„Myndin hefur verið að­eins að skýrast. Tölurnar fóru á flot fyrir viku eða tveimur en manni sýnist þær að­eins að setjast. Ef maður skoðar könnun Frétta­blaðsins eru helstu tíðindin þau að ríkis­stjórnin er löngu fallin og það blasir við,“ segir Ei­ríkur Berg­mann.

Enn mælist níu flokkar inni á þingi. „Og það eru auð­vitað stóru tíðindi þessarar kosninga­bar­áttu. Það er búið að slá hvert metið á fætur öðru,“ segir Ei­ríkur. Sjö flokkar hafi í fyrsta sinn komist á þing 2016, átta 2017 og nú stefni allt í níu flokka.

Ei­ríkur Berg­mann segir um að ræða gjör­breytta stöðu og um það bil hægt að lýsa yfir and­láti fjór­flokksins svo­kallaða, sem burði í ís­lenska kosninga­kerfinu. Breytingarnar hafi byrjað eftir hrun.

„Og ég myndi segja að fari kosningarnar sem horfir þá hafi orðið varan­leg breyting á flokka­kerfinu og við getum bara hætt því að tala um fjór­flokkinn sem eitt­hvað merkingar­bundið at­riði,“ segir Ei­ríkur. Utan þess að þeir flokkar séu þeir einu sem endist al­menni­lega og verði lík­lega alltaf til staðar.

Ekki endi­lega erfiðara að hafa fleiri flokka í stjórn

Ei­ríkur segist ekki vera sann­færður um að það sé rétt sem sumir segja, að það sé alltaf erfiðara að vera með fleiri flokka í ríkis­stjórn heldur en færri.

„Ég held að þegar þú ert á annað borð kominn með fjöl­flokka ríkis­stjórnir þá skiptir kannski ekki alveg sköpum hvort að þeir séu þrír, fjórir eða fimm sem að starfa saman,“ segir Ei­ríkur. Það fari eftir leið­togum, mál­efnum sem uppi eru hverju sinni og segist Ei­ríkur ekki sann­færður um að flækju­stigið verði meira.

Ei­ríkur segir að­spurður að í fimm flokka ríkis­stjórn muni ekki stefna eins flokks geta orðið ráðandi. Hann minnir á að ríkis­stjórnin er ekki fjöl­skipað stjórn­vald sem tekur sam­eigin­legar á­kvarðanir, heldur sé ráð­herraræði við lýði hér­lendis.

„Og kannski verða sam­steypu­stjórnir enn meira því marki brenndar, að ráðu­neytin veðri bara svona síló hvert fyrir sig, með sína mála­flokka.“

Auknar líkur á minni­hluta­stjórn

Hann segir líka hægt að sjá fyrir sér að fjölgun flokkanna muni fela í sér aukinn mögu­leika á minni­hluta­stjórnum. Staðan nú kalli á að þetta sé hugsað upp á nýtt.

„Það getur verið öflug staða fyrir stjórn­mála­flokk að taka ekki sæti í ríkis­stjórn en styðja hana eigi að síður gegn falli, ná í gegn til­teknum málum og fengið þannig kosti beggja, að vera innan stjórnar í and­stöðu við hana,“ segir Ei­ríkur.

Slíkt tíðkast á hinum norður­löndunum, utan Finn­lands. Ei­ríkur nefnir Danska þjóðar­flokkinn sem dæmi um flokk sem styrkst hefur á þann veg.

„En það kallar líka á það, sem ekki hefur gerst í að­draganda þessara kosninga, að flokkarnir skipi sér í sveitir, það verði til blokkir og að þeir geti þá mögu­lega bent á leið­toga annars stjórn­mála­flokks sem sinn for­sætis­ráð­herra eins og til dæmis er gert í Dan­mörku. Þar erum við ekki stödd enn­þá.“

Fréttavaktin er í opinni dagskrá á Hringbraut kl. 18:30 í kvöld.