Það komu upp ýmis verkefni hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Fjórum sinnum þurfti lögreglan að skerast í leikinn vegna slagsmála eða líkamsárásar og þá varð árekstur á milli bíls og rafmagnshlaupahjóls í Kópavogi.

Ökumanni rafmagnshlaupahjólsins var ekið með sjúkrabifreið að slysadeild með minniháttar áverka. Nokkrum tímum síðar var tilkynnt um annað umferðaróhapp í Kópavogi þar sem bifreið var ekið aftan á aðra þar sem annar ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum.

Þá var tilkynnt um bílveltu í úthverfum Hafnarfjarðar en engin slys urðu á fólki.

Í upphafi kvölds fékk lögreglan beiðni um slagsmál milli nágranna í austurhluta Reykjavíkurborgar. Gerandinn var handtekinn og vistaður í fangageymslu þar til hægt var að taka af honum skýrslu.

Rétt fyrir miðnætti barst lögreglu tilkynning um líkamsárás í miðbænum og var gerandi handtekinn.

Stuttu eftir miðnætti fékk lögreglan tilkynningu um slagsmál ungmenna frá einstaklingi sem var búinn að stöðva átökin.

Þá var einn aðili handtekinn eftir að hafa sýnt ógnandi tilburði við lögreglumenn að störfum. Umræddur maður var vopnaður kylfu og var vistaður í fangageymslu.