Þetta er viðsnúningur frá síðasta mánuði. Sérbýli yfir 200 fermetrum, sem lækkaði í verði í júlí, hækkaði á ný í ágúst og nemur tólf mánaða hækkun sérbýlis á höfuðborgarsvæðinu nú 37 prósentum, en 39 prósentum ef aðeins er horft til eigna sem eru meira en 200 fermetrar. Þetta kemur fram í fasteignamælaborði Deloitte.

Í júlí var meðalfermetraverð seldra íbúða undir 80 fermetrum 826 þúsund krónur. Í ágúst er fermetrinn kominn niður í 793 þúsund krónur. Verðið er þó mjög misjafnt eftir hverfum. Hæst er það í Smára-, Linda- og Salahverfi í Kópavogi, 905 þúsund, en lægst í Breiðholtinu, 576 þúsund.

Í fjölbýli yfir 120 fermetrum er verðið hæst í miðborg Reykjavíkur, 843 þúsund fermetrinn. Lægst er það í Breiðholti, í hverfi 109. Meðalfermetraverð alls fjölbýlis er lægst í Breiðholti.

Á landsbyggðinni hækkaði fermetraverð í fjölbýli milli júlí og ágúst og mest hefur hækkunin á landsbyggðinni síðustu tólf mánuði verið á Austurlandi, 48 prósent.

176 fermetrar á 270 milljónir

Hæsta fermetraverðið í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu í ágúst var þegar 176 fermetra íbúð við Bryggjugötu við Austurbakka gömlu hafnarinnar í Reykjavík var seld á 270 milljónir. Fermetraverð í þeirri sölu var 1,53 milljónir. Almennt er óalgengt að fermetraverð íbúða yfir 80 fermetrum sé yfir einni milljón.

Í heildina nam söluverðmæti íbúða í fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu 25,8 milljörðum króna og meðalfermetraverð var rösklega 717 þúsund krónur. Nokkuð algengt var að fermetraverð smærri íbúða væri yfir einni milljón.

Hæsta verðið á fermetra í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu í ágúst var þegar 92 fermetra hús í Fossvogi var selt á 140 milljónir. Fermetraverðið nam 1,52 milljónum. Þetta virðist raunar ekki vera stórt sérbýli.

Annað sérbýli í Fossvogi, 219 fermetra hús við Haðarland, seldist á 245 milljónir, sem gefur fermetraverð upp á ríflega 1,1 milljón. Fermetraverð var undir milljón í öllum öðrum viðskiptum með sérbýli.

700 þúsund króna markið rofið

Meðalverð minni sérbýla á höfuðborgarsvæðinu rauf 700 þúsund króna markið í ágúst. Hæst meðalverð fermetra í sérbýli á höfuðborgarsvæðinu var í Garðabæ, 749 þúsund. Lægst var meðalverðið í Mosfellsbæ, 612 þúsund.

Heildarverðmæti í viðskiptum með sérbýli á höfuðborgarsvæðinu í ágúst nam rösklega 8,5 milljörðum og meðalfermetraverðið var 672 þúsund krónur.