Sala á jólabjór hefur dregist saman um 180 þúsund lítra miðað við árið í fyrra. Er um 605 þúsund lítrar frá byrjun nóvember, þegar jólabjór var tekinn í sölu, en var 785 þúsund lítrar árið 2020.

Í heildina er þetta samdráttur um 23 prósent. Árið 2020 var salan óvenjulega há sem ÁTVR telur vera vegna samkomutakmarkana og lokunar veitingahúsa.

Tuborg Julebryg er langmest seldi jólabjórinn, með 47,4 prósenta markaðshlutdeild. Þetta er fimmfalt meiri sala en á þeim næsta, sem er Viking Jólabjór með 8,3 prósent. Þar á eftir koma Thule Jólabjór, Jólagull og Jóla Kaldi, allir með á bilinu 4 til 6 prósenta hlutdeild en samanlagt eru þessir fimm bjórar með 71 prósents markaðshlutdeild.