Minna af sandi fauk yfir Vík í Mýrdal en sýndist fyrst, þetta sagði Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri í Mýrdalshreppi, í samtali við RÚV.

Líkt og greint var frá í gær verður líklega ekki hægt að opna sund­laugina á Vík fyrr en eftir eða um helgina í kjölfar sand­foks í ó­veðrinu sem gekk yfir landið á mánudaginn.

Þorbjörg sagði að myndir af sandinum gæfu ranga mynd af magninu. Í raun sé bærinn á kafi í snjó og aðeins þunnt lag af sandi hafi lagst á snjóinn.

„Það var mjög sláandi að koma út í gærmorgun. Það var eins og það hafi staðið yfir öskugos. Það var allt grátt, allir gluggar og bílarnir þaktir í sandi. Það eitt og sér er nú nógu slæmt. En myndirnar gáfu kannski ekki alveg rétta sýn á þetta því undir þessu gráa öskulagi, eða sandlagi, var haugur af snjó,“ sagði hún.

Bærinn er nú orðinn hvítur eftir snjókomu. „Bílar urðu þaktir og allar rúður urðu þaktar í sandi. Fólk þarf náttúrulega að skola það og þrífa en mokstur á götum er ekki að öðru leyti frábrugðinn því sem er bara við snjómokstur. En auðvitað þurfum við að hreinsa allar stéttar og palla og þetta er hellings vinna og þetta er mjög óskemmtileg reynsla.“