Mun minna er af makríl í íslenskri lögsögu heldur en undanfarin ár. Þetta sýna bráðabirgðaniðurstöður árlegs sumarleiðangurs í Norðurhöfum sem hófst í byrjun júlí og rannsóknaskipið Árni Friðriksson tók þátt í.

Í tilkynningu frá Hafrannsóknastofnun segir að einnig hafi mælst minna af kolmunna samanborið við fyrri ár en svipað magn af síld.

Alls tóku sex skip frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi þátt í leiðangrinum og verða gögn frá þeim tekin saman og greind í ágústmánuði. Auk rannsókna á uppsjávarvistkerfinu voru tekin sýni úr miðsjávarlögum fyrir tvö alþjóðleg rannsóknarverkefni sem Hafrannsóknastofnun er aðili að.