Forn­­leifa­­fræðingar frá Minja­­stofnun Ís­lands eru að störfum á Reykja­nesi í dag að mæla og mynda minjar sem eru í hættu miðað við hraun­rennslis­spá­kortið.

Fjöl­margar friðaðar og frið­­lýstar minjar eru á ó­róa­svæðinu og enn á eftir að skrá margar minjar með full­­nægjandi hætti að sögn Sól­rúnar Ingu Trausta­dóttur forn­­leifa­­fræðings. Hætta er á að þær glatist að ei­lífu komi til eld­­goss.

„Fjöldi þekktra friðaðra minja er á svæðinu. Minjarnar til­heyra ýmsum minja­flokkum en helst er að nefna fjöl­mörg sel, bæði frá bæjum sunnan- og norðan­vert á Reykja­nes­skaganum,“ út­skýrir Sól­rún. Hún segir helstu selin í hættu vera Dals­sel við Fagra­dals­fjall, Knarrar­nes­sel, Auðna­sel, Forna­sel, Rauð­hóla­sel, Sel­tó, Kol­hóla­sel, Odda­fells­sel nyrðra og syðra sem eru sunnan Reykja­nes­brautar.

Frá vinstri: Sólrún Inga Traustadóttir, Ásta Hermannsdóttir, fornleifafræðingar og verkefnisstjórar, Þór Hjaltalín, minjavörður Reykjaness, María Gísladóttir, arkitekt og verkefnisstjóri, dr. Kristín Huld Sigurðardóttir.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Vísinda­ráð al­manna­varna fundar í dag til að fara yfir ný gögn. Búið er að bæta við nýjum GPS-stöðvum á Reykja­nes­skaga sem svo hægt sé að mæla betur kviku­hreyfingar undir yfir­borði.

Ekki er talið lík­legt að gos hefjist á næstu klukku­stundum og lauk gos­ó­róanum sem hófst um klukkan 14:20 á mið­viku­dag um mið­nætti þann sama dag.

„Nú er við­varandi skjálfta­virkni á svæðinu en ó­róinn var bara á mið­viku­dag,“ segir Einar Hjör­leifs­son, náttúru­vá­r­sér­fræðingur, í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hvað eru sel?

Sel, eða sel­stöður, voru staðir sem nýttir voru á sumrin – oft einnig kölluð sumar­hús. Þangað var farið með bú­smala, kindur og/eða kýr, til að halda þeim frá heima­túnum á meðan gras­sprettan var sem mest. Í seljum voru skepnurnar mjólkaðar og mjólkin unnin. Einnig eru vís­bendingar um að fleiri at­hafnir hafi farið fram í seljum, s.s. nýting á öðrum auð­lindum í um­hverfinu. Í seljum voru hús sem hýstu þá sem þar dvöldu auk kvía/að­halds (til að smala skepnunum í til mjalta), eld­hús, geymslur/búr og jafn­vel fleiri rými. Venjan var að hver bær ætti sitt sel, þótt stundum hafi þau verið sam­nýtt, og eru selinu því oft nefnd eftir heima­bænum. Í góðum selja­löndum má oft finna mörg sel, frá mörgum bæjum en jafn­vel einnig á ó­líkum aldri. Selja­bú­skapur hófst á Ís­landi snemma eftir land­nám og var stundaður allt til alda­móta 1900, en þó mis­jafn­lega lengi eftir lands­hlutum.

Samgönguminjar eins og Vörður eru í hættu. Friðlýstar minjar á Vatnsleysuströnd virðast sleppa miðað við þá spá.
Fréttablaðið/Gunnar V. Andrésson / GVA

Frið­lýsing og friðun

Frið­lýsing er mesta mögu­lega verndun menningar­minja á Ís­landi og er talað um að menningar­minjar séu frið­lýstar sem þjóð­minjar. Frið­lýsingu er þing­lýst sem kvöð á fast­eign og er það gert til að tryggja sem best varð­veislu menningar­minjanna. Ráð­herra á­kveður frið­lýsingu eða af­nám frið­lýsingar að fenginni til­lögu frá Minja­stofnun Ís­lands.
Friðun (aldurs­friðun): Allar menningar­minjar 100 ára og eldri eru friðaðar sam­kvæmt aldurs­á­kvæði laga um menningar­minjar nr. 80/2012. Friðun felur í sér sjálf­krafa verndun forn­minja (forn­gripa og forn­leifa), húsa og mann­virkja á grund­velli aldurs þeirra.