Matar­hjálp Sam­einuðu þjóðanna (WFP) varar við því að milljónir Af­gana gætu upp­lifað hungur­sneyð í vetur nema gripið sé til tafar­lausra að­gerða. Meira en helmingur þjóðarinnar, um 22,8 milljón manns, - standa frammi fyrir al­var­legu fæðu­ó­öryggi og 3,2 milljónir barna undir fimm ára aldri gætu lent í al­var­legri van­næringu, að sögn WFP.

„Afgan­istan er núna ein af heimsins verstu mann­úðar­krísum, ef ekki sú versta. Við erum að telja niður í stór­slys,“ segir David Beasl­ey, fram­kvæmda­stjóri WFP.

Talí­banar náðu aftur völdum í Afgan­istan í lok ágúst eftir að Banda­ríkja­her og annar er­lendur liðs­afli yfir­gaf landið eftir tuttugu ára her­setu.

Valda­takan er talin hafa veikt efna­hag Afgan­istan, sem þegar var mjög brot­hættur og háður neyðar­að­stoð, til muna. Vest­ræn ríki stöðvuðu neyðar­að­stoð sína í kjöl­farið og bæði Al­þjóða­bankinn og Al­þjóða­gjald­eyris­sjóðurinn hafa stöðvað greiðslur.

Sam­kvæmt skil­greiningum Al­þjóða­bankans er þjóð háð að­stoð þegar 10 prósent ef meira af lands­fram­leiðslu hennar kemur frá að­stoð er­lendra ríkja. Í til­felli Afgan­istan kemur um það bil 40 prósent af lands­fram­leiðslunni frá er­lendum ríkjum.

Geta ekki borðað á hverjum degi

Að sögn BBC neyðast nú fjöl­margir Af­ganar til að selja eigur sínar til að eiga efni á mat. Nýju ríkis­stjórn Tali­bana hefur verið meinaður að­gangur að fjár­munum sínum er­lendis á meðan er­lend ríki meta hvernig takast eigi á við öfga­hópinn, sem þýðir að laun til opin­berra starfs­manna hafa ekki verið greidd út.

„Ég hef ekki fengið greidd launin mín í meira en fimm mánuði,“ segir kennari frá Herat í sam­tali við BBC. „Lífið er efitt. Ég þarf að selja allt sem við eigum heima. Við erum að selja dýrin okkar og höggva niður trén okkar til að selja viðinn.“

Þá lýsti maður frá Kandahar því hvernig hann sá konu leita í rusli hótels borgarinnar til að leita matar fyrir börnin sín.

Matar­hjálp Sam­einuðu þjóðanna varaði við því í septem­ber að að­eins fimm prósent af­ganskra fjöl­skyldna hafi nóg af mat til að borða á hverjum degi. Þá hafa hauð­synja­vörur eins og matar­olía og hveiti skotist upp í verði. Í októ­ber varaði stofnunin við því að ein milljón barna væri í hættu á að deyja vegna al­var­legrar van­næringar ef þau fengju ekki lífs­björg.

Á ráð­stefnu í Genf síðast­liðinn septem­ber hét al­þjóða­sam­fé­lagið meira en 1 milljarði Banda­ríkja­dala til stuðnings Af­gana og þar þriðjungur þess fjár­magns eyrna­merktur fyrir WFP.

Sam­kvæmt stofnuninni hefur þó einungis þriðjungur verk­efna neyðar­að­stoðar Sam­einuðu þjóðanna verið fjár­magnaður. Stofnunin segir að hún gæti þurft allt að 220 milljónir Banda­ríkja­dala á mánuði til að mæta á­skorununni og lýsti nú­verandi fjár­bindingum sem „dropa í hafið“.