Borgir, þar sem samtals um helmingur jarðarbúa býr, hafa sett sér sérstök markmið til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Nokkrar þeirra hafa stefnt að kolefnishlutleysi árið 2050 en fáeinar hafa sett sér þau markmið fyrr. Melbourne í Ástralíu hefur sett sér markmið um kolefnishlutleysi strax á næsta ári.

Þetta kemur fram í úttekt á vef Bloomberg. Hlýnun jarðar af manna völdum er sennilega langstærsta verkefni samtímans. Ný skýrsla hefur sýnt að í óefni stefni og að lífríki jarðar stafar bráð hætta af stöðunni sem uppi er.

Í umfjöllum Bloomberg, sem unnin er upp úr gögnum CDP, hópi sem hvetur stofnanir til að kortleggja losun sína, er birtur listi yfir borgir þar sem stjórnvöld hafa sett sér markmið hvað mengun varðar. Reykjavík er þeirra á meðal, þó hún skeri sig úr hvað mannfjölda varðar. Hér má sjá loftlagsstefnu Reykjavíkurborgar.

Melbourne stefnir á kolefnishlutleysi á næsta ári. Haag í Hollandi stefnir á slíkt árið 2030 og Reykjavík árið 2040. Canberra í Ástralíu stefnir á kolefnishlutleysi árið 2045. Aðrar borgir, svo sem Sidney, Calgary, Cleveland og Vancouver hafa sett sér metnaðarfull markmið í skrefum. Flestar þeirra stefna að kolefnishlutleysi árið 2050.

Hér geta Íslendingar reiknað út kolefnislosun sína.

CDP hefur hvatt aðrar borgir til að setja sér markmið þegar kemur að losun gróðurhúsalofttegunda. „Margar borgir hafa lagt í mikla vinnu en þær geta ekki gert þetta einar og sér,“ er haft eftir Kyra Appleby hjá CDP. „Fyrirtækin þurfa að taka við sér og ríkisstjórnir líka. Fólk þarf að endurskoða hegðun sína til að hægt verði að draga úr losun.“

Á vef Bloomberg má sjá lista yfir þau markmið sem 28 borgir hafa sett sér varðandi losun gróðurhúsalofttegunda. Á listanum eru aðeins borgir sem hafa sett sér markmið um að draga úr losun um 50% eða meira.

Hér má sjá hluta af graffík Bloomberg.
Bloomberg