Til þess að stuðla að því að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti þarf að fjarlægja um milljón tonn af olíu úr íslensku hagkerfi. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu Eflu um efnahagsleg áhrif orkuskipta sem var kynnt í gær þegar nýr upplýsingavefur, orkuskipti.is, var kynntur.

Samtök iðnaðarins, Landsvirkjun, Samorka og Efla stóðu að kynningunni. Markmið stjórnvalda er að Ísland nái kolefnishlutleysi og fullum orkuskiptum árið 2040 og verði þá óháð jarðefnaeldsneyti fyrst ríkja.

Orkuskipti ganga út á að hætta að nota óendurnýjanlega orkugjafa eins og olíu og nota þess í stað endurnýjanlega orkugjafa eins og vatn, jarðvarma, vind og sól.

Ísland notar um milljón tonn af olíu árlega sem kostar um 100 milljarða króna, sem jafngildir verðmæti alls afla úr sjó við Ísland í sex mánuði.

Árið 2018 voru flutt til landsins rúmlega milljón tonn af olíu og var vegið meðalverð þeirra olíuafurða sem fluttar voru til landsins um 57 krónur lítrinn.

Heildarverðmæti innflutnings árið 2018 var um 76 milljarðar króna. Í ár munu Íslendingar flytja inn um 750 þúsund tonn af olíu. Vegið meðaltal innkaupsverðs er um 105 krónur á lítrann og heildarverðmæti olíuinnflutnings því rúmlega 100 milljarðar.

Bent var á það í skýrslunni að efnahagslegur ávinningur Íslands af orkuskiptum fram til ársins 2060 geti numið 1.400 milljörðum króna sem samsvarar fjármögnun heilbrigðiskerfisins í nær fimm ár.