Allt að 1,6 milljónir Bandaríkjamanna hafa ekki náð lyktarskyni sínu aftur til fyrra horfs hálfu ári eftir að hafa veikst í Covid-faraldrinum. Þetta kemur fram í vísindatímaritinu JAMA Otolaryngology – Head & Neck Surgery.

Höfundar rannsóknarinnar við Washington-læknaháskólann í St. Louis telja að líklega séu mun fleiri án lyktarskyns eftir faraldurinn.

72 prósent þeirra sem veikst hafa af Covid hafa fengið lyktarskynið til baka mánuði eftir smit, óvíst er hvort það snúi til baka hjá öllum sem veikjast.

John Hayes, efnafræðingur við Penn-háskóla, sagði við CNN í gær að skert lyktarskyn væri ekki alvarlegasti fylgikvilli veirunnar en meiri líkur séu á að fólk borði skemmdan mat auk þess sem skert lyktarskyn geti leitt til þunglyndis.